Ari Elíasson, eigandi Sporthússins í Reykjanesbæ, birtir sláandi yfirlýsingu í lokuðum Facebook-hópi viðskiptavina Superforms, lítillar æfingastöðvar sem hefur verið staðsett inni í húsnæði Sporthússins. Segir Ari að Sporthúsið hafi tekið yfir starfsemi Superforms. Ástæðan fyrir því sé atvik sem varð í æfingatíma Superforms.
Í tilkynningu Ara er þetta orðað svona: „Þann 1. júlí sl. varð atvik í æfingatíma Superform sem við hörmum og þykir ákaflega leiðinlegt. Málið var strax tekið föstum tökum, rætt við hlutaðeigandi og viðkomandi beðinn afsökunar. Í því samfélagi sem við eigum saman í Sporthúsinu og Superform gerum við þá kröfu til þjálfara, annarra starfsmanna og iðkenda að háttvísi sé í hávegum höfð í öllum samskiptum. Við viljum að öllum sem taka þátt í starfi okkar líði vel og upplifi sig örugga.“
Þjálfarinn sem var að verki í umræddu atviki mun vera fyrrverandi eigandi Superform en hann hefur nú hætt störfum og kveður Superform og Sporthúsið. Óskar Ari honum velfarnaðar í störfum sínum.
Samkvæmt heimildum DV gerðist þjálfarinn sekur um að slá konu sem var við æfingar í Superform utan undir og ausa yfir hana svívirðingum. DV hafði samband við umrædda konu, hún vildi lítið tjá sig um málið en staðfesti þessa atvikalýsingu.
Ari endar yfirlýsingu sína á jákvæðum nótum og segir að Sporthúsið hafi tekið í notkun nýja og glæsilega æfingasali og á næstu vikum verði nýr og vandaður æfingabúnaður tekinn í notkun.