Rússar herja nú grimmt á Donetsk-hérað í Austur-Úkraínu eftir að her þeirra náði að mestu leyti tökum á Luhansk-héraði en saman mynda héröðin hið svokallaða Donbas-svæði sem Vladmir Pútín, Rússlandsforseti ásælist. Héraðsstjóri Donetsk hefur hvatt um 350 þúsund óbreytta íbúa til að flýja af hólmi en útlit fyrir blóðuga bardaga á svæðinu næstu daga og vikur. „Örlög Úkraínu allrar munu ráðast í Donetsk,“ sagði héraðsstjórinn Pavlo Kyrylenko
Takist Rússum að brjóta niður varnir Úkraínumanna í Donetsk er sá möguleiki í stöðunni að Pútín bjóði Volodymyr Zelensky, Úkraínuforseta, vopnahlé. Þessar vangaveltur komu meðal annars fram í umfjöllun bandarísku sjónvarpstöðvarinnar CNBC þar sem rætt var við varnarmálasérfræðinginn Victor Abramowicz, hjá ráðgjafafyrirtækinu Ostoya Consulting.
Tilgangur Pútín með vopnahléstillögu yrði þá að veita herjum sínum andrými til þess að styrkja tök sín á svæðinu og byggja upp varnir sínar á hinum hernumdu svæðum.
Ástæðan fyrir því að tilboð um vopnahlé gæti komið Zelensky í vandræði er sú að hafni hann tillögunni gæti hann átt á hættu að missa stuðning einhverrja vesturvelda enda með öllu óvíst hversu mikla þolinmæði ríkin hafa gagnvart langvarandi stríðsátökum. Zelensky gæti því verið í erfiðri stöðu líti slíkt tilboð dagsins ljós.