Talið er að ein helsta ráðgáta í sögu Ástralíu sé loks leyst. Í 75 ár hafa Ástralir og í raun heimsbyggðin öll klórað sér í hausnum yfir líki sem fannst fyrir 75 árum síðan. Um var að ræða lík manns á miðjum aldri sem fannst þann 1. desember 1948 á Somerton-ströndinni við borgina Adelaide í Ástralíu. Maðurinn hefur síðan verið kallaður Somerton-maðurinn. Mikið hefur verið fjallað um málið í gegnum árin enda er það sveipað dulúð – um það hafa verið gerðar heimildarmyndir, skrifaðar bækur, samin lög auk fjölmargra tilvísana í málið í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.
Það var ekki síst hversu snyrtilegt líkið var á ströndinni, íklætt jakkafötum, sem hefur gert það að verkum að það er svo dularfullt. Dánarorsök hins látna hefur aldrei verið staðfest og engir sjáanlegir áverkar á líkinu. Engin skilríki voru í fötum mannsins en nokkru eftir líkfundinn fannst miði sem hafði verið saumaður inn í buxur hins látna. Á honum voru tvö persnesk orð skrifuð „Tamam Shud“ sem þýðir „búinn“ og er tilvísun í þekkt gamalt ljóð. Þá fannst síðar bók í yfirgefnum bíl á nærliggjandi bílastæði með stafarunum sem ýtti undir þær kenningar að um dulmál frá stríðsárunum væri að ræða og að hinn látni væri því njósnari.
Margt annað einkennilegt kom upp á yfirborðið en aldrei tókst að bera kennsl á líkið og í rúm 74 ár hefur enginn stigið fram sem getur gefið haldbærar upplýsingar um hinn látna.
En nú hefur það breyst ef marka má frétt CNN. Fyrir einu ári síðan var líkið grafið upp og þess freistað að bera kennsl á líkið með nýjustu tækni. Nú hefur einn rannsakenda, Derek Abbott, prófessor við háskólann í Adelaide stigið fram og greint frá því að sennilega hefur tekist að greina hver Somerton-maðurinn var. Abbott hefur tileinkað síðustu þremur áratugum þessari ráðgátu enda hefur verið uppi grunur um að hinn látni væri tengdur eiginkonu hans fjölskylduböndum. Því var um að ræða stóra stund fyrir Abbot þó að kenningin um fjölskyldutengslin hafi ekki reynst rétt.
Að sögn Abbott hét hinn látni Carl „Charles“ Webb frá Melbourne, sem er rúmum 600 kílómetrum frá Adelaide. Webb, sem starfaði sem rafmagnsverkfræðingur, var fæddur 16. nóvember árið 1905 sem þýðir að hann var 43 ára þegar hann fannst látinn.
Það var þó ekki nýjar upplýsingar úr uppgreftinum sem leystu gátuna. Abbott og aðrir rannsakendur notuðu hár úr Webb, sem fannst í plastgrímu sem lögreglan lét gera af andliti hins látna skömmu eftir að líkið fannst, til þess að greina erfðamengi hans og þannig var hægt að byggja upp fjölskyldutré huldumannsins. Smátt og smátt þrengist því hringurinn um hver Somerton-maðurinn var og að lokum lá ljóst fyrir, að sögn Abbott, að maðurinn var Carl Webb.
Í umfjöllun CNN kemur þó fram að lögregluyfirvöld á svæðinu hafi neitað að staðfesta að tekist hafi að bera kennsl á líkið og því er enn beðið eftir formlegu staðfestingu um að hinn látni sé sannarlega Webb.
Enn er þó mörgum spurningum ósvarað um dauða hins snyrtilega manns og því má reikna með að vangaveltum fólks um Somerton-manninn sé hvergi nær lokið.