Þann 17. september næstkomandi er ráðgert að tónleikar sem bera yfirskriftina „Rokk í Reykjavík“ fari fram í Kaplakrika í Hafnarfirði. Fyrir utan þá staðreynd að Rokk í Reykjavík þurfi að finna sér skjól í Hafnafirði þá hefur auglýsingaplakat tónleikanna hafi vakið mikla athygli og talsverða ólgu en þar má sjá fimmtíu karlkyns tónlistarmenn og ekki eina einustu konu eða kynsegin einstakling.
Tónlistarkonan Salka Sól Eyfeld vakti athygli á málinu með hárbeittu tísti. „….Meira svona Cock í Reykjavík?“ skrifaði tónlistarkonan og þar með sprakk út umræða um málið á samfélagsmiðlum þar sem sitt sýnist hverjum.
…meira svona Cock í Reykjavík? pic.twitter.com/4Pk8hh9bhh
— Salka Sól Eyfeld (@salkadelasol) July 15, 2022
Bent hefur verið á í samnefndri heimildarmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar frá árinu 1982 hafi konur verið í mun stærri hlutverkum. Tónlistarkonan Björk var í aðalhlutverki á plakatinu og hljómsveitir eins og Q4U og Grýlurnar spiluðu stóra rullu. Heimur hafi því farið versnandi.
Umræðan á samfélagsmiðlum hefur þó verið í þá átt að engar konur séu í rokkhljómsveitum í dag. Það er þó ekki allskostar rétt því fjölmargar konur spila í hljómsveitum á borð við Mammút, Börn, Vicky, Kælan mikla, Sykur, Vök og Angist svo einhverjar séu nefndar úr umræðunum á samfélagsmiðlum.