Flugstjóri hjá Icelandair, sem var sakfelldur fyrir ölvunarakstur haustið 2020, hlaut sex mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm og er á skilorði til 21. október næstkomandi, var settur í leyfi í gær í kjölfar fréttaflutnings DV. Samkvæmt öruggum heimildum var hann skráður sem flugstjóri á vinnuplani í júlí.
Atvikið sem leiddi til fangelsisdóms flugstjórans átti sér stað á aðfaranótt gamlársdags árið 2017. Tveir flugmenn voru þá undir áhrifum áfengis að aka svokölluðum buggy-bíl í Hafnarfirði. Ökumaðurinn, flugstjórinn sem hér um ræðir, missti stjórn á bílnum sem lenti á gangstéttarkanti, fór yfir gangstéttina, lenti á ljósastaur og kastaðist síðan utan í klettavegg áður en hann valt og staðnæmdist á hægri hlið. Ökumaður bílsins slapp tiltölulega lítið meiddur en farþeginn örkumlaðist fyrir lífstíð og getur ekki tjáð sig skilmerkilega í dag. Mun hann aldrei getað unnið aftur og þarf sólarhringsumönnun út ævina. Fyrr í vikunni féll dómur í skaðabótamáli þolanda slyssins gegn VÍS sem skerti bætur hans um 2/3 á grundvelli meðsektar hans, þar sem hann hefði mátt vita að ökumaður bílsins væri undir áhrifum áfengis. Dæmdi Héraðsdómur tryggingafélaginu í vil.
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum DV fór flugstjórinn í nokkurra mánaða leyfi eftir slysið en hóf störf að nýju árið 2018 og hefur verið samfellt við störf sem flugstjóri hjá Icelandair allt þar til hann var settur í leyfi í gær. Haustið 2020 var hann ákærður fyrir brot á 219. grein hegningarlaganna, sem varðar það að valda líkamstjóni annars manns vegna gáleysis. Dómurinn var sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, og tíu mánaða ökuleyfissvipting.
Í kjölfar fréttaflutnings DV um dómsmál þolandans í slysinu gegn VÍS bárust ábendingar um hvaða flugstjóri hefði ekið bílnum og að hann væri enn við störf hjá Icelandair.
DV sendi þá fyrirspurn á Ásdísi Ýr Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair, óskaði eftir skýringum á því hvers vegna flugstjórinn væri við störf og bað um upplýsingar um hvaða reglur gildi um starfsfólk félagsins sem fái refsidóma og kunni að vera á skilyrði. Einnig var spurt sérstaklega út í möguleg viðurlög gegn flugmönnum sem gerast sekir um ölvunarakstur. Fyrirspurnin var send kl. 12 á hádegi á þriðjudag.
Síðdegis í gær, miðvikudag, hafði fyrirspurninni ekki verið svarað og hafði DV þá samband símleiðis við annan starfsmann á upplýsingasviði Icelandair. Í kjölfar þess símtals var fyrirspurnin uppfærð og send á viðkomandi starfsmann.
Skömmu eftir að frétt DV hafði birst í gær kl. 16:30 barst stutt svar frá Ásdísi og var það orðrétt svohljóðandi:
„Viðkomandi starfsmaður er í leyfi frá störfum. Að öðru leyti getum við ekki tjáð okkur um málefni einstakra starfsmanna.“
DV ítrekaði þá fyrra efni fyrirspurnar sinnar, þ.e. hvaða reglur giltu í tilvikum sem þessum, sem og hvenær starfsmaðurinn hefði farið í leyfi, en þeirri fyrirspurn hefur ekki verið svarað.