Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að aðeins sextíu heimilislæknar séu fyrir hverja 100.000 Íslendinga. Aðeins í Grikklandi og Póllandi eru færri heimilislæknar á hverja 100.000 íbúa. Almennt eru um og yfir 100 heimilislæknar fyrir hverja 100.000 íbúa í ríkjum Vestur-Evrópu. Þar skera Portúgalar sig úr en þar eru tæplega 300 heimilislæknar á hverja 100.000 íbúa. Í Finnlandi eru rúmlega tvöfalt fleiri heimilislæknar á hverja 100.000 íbúa en hér á landi.
Hvað varðar barnalækna er staðan enn verri hér á landi því við erum langneðst á lista yfir fjölda þeirra á hverja 100.000 íbúa. Ísland er yfirleitt um miðjan lista í öðrum sérfræðigreinum, til dæmis kvensjúkdómalækningum, geðlækningum og skurðlækningum.
Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélagsins, sagði í samtali við Fréttablaðið að starfsumhverfi heimilislækna sé erfitt hér á landi. Álagið sé mikið og verkefnin óljós. Sumir heimilislæknar séu með tvöfaldan eðlilegan fjölda skjólstæðinga. „Innan heilsugæslunnar er illa skilgreint hvað sé hámarksálag á heimilislækni og ekkert þak á fjölda skjólstæðinga,“ sagði hún og bætti við að heimilislæknar fái oft inn á sitt borð flókin verkefni sem ættu að vera á höndum annarra sérfræðilækna eða fagstétta. „Þau lenda oft í að vera sálfræðingur, félagsráðgjafi og allt mögulegt fyrir fólk, því það vantar fólk úr þeim stéttum á heilsugæsluna,“ sagði hún.