Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Steinþóri Skúlasyni, forstjóra SS, að verið sé að koma til móts við mikla hækkun rekstrarvöru hjá bændum. Sérstaklega hjá sauðfjárbændum því áburðarkostnaður vegi hlutfallslega þyngra hjá þeim en öðrum.
Hann sagðist ekki muna eftir að afurðaverð hjá SS hafi hækkað eins mikið áður og verður nú í haust. Hann sagði að verulegur hluti þessara hækkana muni skila sér út í verð til neytenda því lítið svigrúm sé til hagræðingar hjá afurðastöðvum. Lambakjöt muni því hækka í verði en ekki jafn mikið og afurðaverðið.
Steinþór sagði það hafa verið kappsmál afurðastöðva um langa hríð að fá undanþágu frá samkeppnislögum svo þær geti sameinað krafta sína og hagrætt í rekstrinum.