Svona hefst pistill sem Sigmar Vilhjálmsson, athafnamaður sem situr í stjórn Atvinnufjelagsins, skrifar en pistillinn birtist á Vísi í dag. Í pistlinum veltir Sigmar, sem oftast er kallaður Simmi Vill, upp þeirri hugmynd að hætta að borga fólki hærri laun fyrir kvöld- og helgarvinnu.
„Hlutastarfsmenn í mörgum fyrirtækjum eru oft að fá hærri laun fyrir færri tíma vegna 33% álags á kvöldin og 45% álags um helgar. Það er óréttlátt gagnvart þeim launamönnum sem geta ekki unnið um kvöld og helgar,“ segir Sigmar.
Þá segir hann að fjölskyldufólk sé í miklum meirihluta launamanna og að það eigi erfiðara með að vinna um kvöld og helgar. „Þeim er mismunað vegna þessa kerfis. Álagið leggst ofan á dagvinnutaxtann sem viðkomandi er með. Það þarf ekki stærðfræðing til að reikna út að starfsmenn í aukavinnu til dæmis með námi þurfa færri tíma til að ná sömu launum og launamenn sem vinna 100% dagvinnu. Það er ekki jafnræði.“
Sigmar segir að það hafi færst í aukana að einstaklingar vilji frekar vinna seinnipart dags, um kvöld eða helgar í stað þess að vinna dagvinnu. „Því ættu þeir launamenn að fá hærri laun en þeir sem vinna á daginn fyrir sama starf? Það er ekki jafnræði, sérstaklega ef það er val viðkomandi launamanns að vinna á kvöldin og um helgar,“ segir hann.
„Atvinnulífið hefur breyst mikið á síðustu árum m.a. með auknum umsvifum í ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan sefur aldrei. Það er því alveg kominn tími til að endurskoða nálgun á þetta launakerfi.“
Næst segir Sigmar að með því að horfa á vaktir óháð tíma, virkum dögum eða helgum þá væri hægt að einfalda umræður í kjarasamningum. „Hægt væri að nálgast málið með því að segja að fyrstu 8 tímar á vakt, óháð tíma eru á dagvinnutaxta, sem væri því kallaður einfaldlega: GRUNNTAXTI. Undanskilið væri helgidagar (rauðir dagar) og næturvinna,“ segir hann.
„Með þessari hugmynd væri hægt að jafna stöðu launamanna innan sama fyrirtækis. Þessi leið myndi sporna gegn verðhækkunum á vörum og þjónustu fyrir viðskiptavini og gera Ísland samkeppnishæfara í ferðaþjónustu.“
Þegar líða fer að lokum pistilsins segir Sigmar að þessi hugmynd myndi breyta mjög miklu fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi. „Enda þjónustustig L&M stórra fyrirtækja töluvert hærra en hjá opinberum fyrirtækjum og hjá stórfyrirtækjum,“ segir hann.
Þessi hugmynd jafnar stöðu launamanna sem ætti að vera keppikefli verkalýðshreyfingarinnar. Það er alveg kominn tími til að kjarasamningar horfi til lítilla og meðalstórra fyrirtækja, enda er um að ræða 70% af launþegum og 99% allra fyrirtækja hér á landi. Það er alveg kominn tími til að lítil og meðalstór fyrirtæki fái sæti við kjarasamningsborðið og að kjarasamningar taki mið af raunheimum atvinnulífsins.
Sigmar botnar svo pistilinn með skilaboðum til þeirra sem eiga fyrirtæki. „Öll fyrirtæki sem eru ekki skráð í neitt félag ber, samkvæmt lögum, að fylgja þeim kjarasamningum sem Samtök Atvinnulífsins gera þó að fyrirtækið þitt sé ekki skráð í neitt félag. Það er því mikilvægt að skrá fyrirtækið í Atvinnufjelagið strax til að ná fram breytingum á www.afj.is.“