Ekki liggur fyrir á hvaða forsendum Lögreglustjórinn á Vestfjörðum ákvað að láta grafa upp líkamsleifar Kristins Hauks Jóhannessonar, sem lést í bílslysi við Óshlíðarveg í september árið 1973. Í tilkynningu lögreglu um málið segir:
„Aðdragandi þessarar aðgerðar er sá að lögreglunni á Vestfjörðum hafði borist ábending um að umrætt slysaatvik hafi ekki verið upplýst nægjanlega á sínum tíma. Þrátt fyrir að langur tími sé liðinn eru taldar líkur á því að hægt sé að upplýsa nánar um tildrög atviksins sem um ræðir.“
Ljóst er að ættingjar Kristins heitins hafa beitt sér fyrir endurupptöku rannsóknarinnar og ennfremur að meðal röksemda þeirra eru að bíllinn sem Kristinn var í hafi verið of heillegur eftir að hafa oltið 30 metra niður Óshlíðina.
Kristinn lést er leigubíll fór út af Óhlíðarvegi og valt niður hlíðina en auk hans voru í bílnum leigubílstjóri og ung stúlka sem sat frammi í. Bílstjórinn og stúlkan sluppu lítið meidd en Kristinn lét lífið er bíllinn fór út af og valt niður hlíðina. Kristinn lá í aftursætinu og var að sögn bílstjórans mjög drukkinn. Leigubílstjórinn er enn á lífi og lét hann hafa það eftir sér við fjölmiðla í gær að hann væri undrandi og hneykslaður á þeirri ákvörðun að taka upp málið. Segir hann að það bendi til þess að lögregla telji að morð hafi verið framið og það sé furðuleg ályktun.
Ljósmynd frá vettvangi sýnir að bíllinn var nokkuð heillegur eftir veltuna og að rúður eru óbrotnar og umgjörð hliðarspegils óbeygluð.
DV bar þetta undir sérfræðing í bílatjónum og segir hann það fyrst og fremst vera sérkennilegt að rúðurnar séu óbrotnar. Það sé þó fræðilega ekki útilokað:
„Ef hann hefur rúllað margar veltur myndi ég telja að rúður hefðu brotnað,“ segir maðurinn. Þó að bíllinn hafi oltið 30 metra er ekki hægt að útiloka að bíllinn hafi farið beint niður og tekið eina veltu í lokin. Fræðilega séð gætu rúðurnar verið heilar eftir eina veltu þó að það sé fremur ólíklegt.
Eins og myndin sýnir er stórgrýtt á svæðinu sem gerir það enn sérkennilegra að rúðurnar séu óbrotnar eftir bílveltu þessa vegalengd.