fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Segist hafa kært Ingó fyrir líkamsárás en málið sagt fyrnt – „Ég hræðist að það verði gert lítið úr mér eða mér ekki trúað“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 4. maí 2022 14:55

Ingólfur Þórarinsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Mynd: Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í umræðu um mál tónlistarmannsins Ingólfs Þórarinssonar, Ingós Veðurguðs, hefur því nokkuð verið haldið á lofti að ásakanir á hendur honum séu nafnlausar og margar hverjar alls ekki frá fyrstu hendi. Í aðalmeðferð í meiðyrðamáli Ingós gegn Sindra Þór Sigríðarsyni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, síðastliðinn mánudag, sló það viðtadda blaðamenn að ekkert vitni var leitt fram sem hafði haft bein kynni af Ingó. Þá kom einnig fram að Sindri, sem sakaði Ingó um að „ríða börnum“, vitnaði ekki um nein bein tengsl við meinta þolendur Ingós.

Staðhæft hefur verið að Ingó hafi hvorki verið kærður, ákærður né sakfelldur fyrir brot gegn konum. Í fyrrasumar gerði þó kona ein tilraun til að kæra hann fyrir líkamsárás. Konan á reynslusögu númer 3 af þeim sem aðgerðahópurinn Öfgar birti í fyrra. Sagan er eftirfarandi:

„Ég var að djamma í miðbænum þegar að hann nálgast mig og spyr hvort að ég vilji koma með honum upp á hótelherbergi. Ég var mjög drukkin og var til í það, en þegar við komum upp á herbergi varð hann mjög skrítinn og agressívur. Við byrjum að kyssast og svona en svo byrjar hann að hrækja framan í mig og kýlir mig í augað. Þá bið ég hann um að hætta öllu en hann reynir að þvinga mig í að halda áfram. Þegar ég loks næ að ýta honum af mér, stendur hann upp og klæðir sig í föt og spyr mig hvort það sé nokkuð kynlífslykt af sér þar sem hann væri að fara heim til kærustu sinnar sem ég vissi ekki af.

Daginn eftir fæ ég svo skilaboð frá honum að hann vilji hitta mig aftur og að hann geti alveg komið heim til mín á meðan mamma væri í vinnunni, hann sendi mér skilaboð stanslaust í ca. tvo mánuði sem að voru mjög óþægileg. Á þessum tíma var ég 21 árs og hann 32 ára. Fæ æluna í hálsinn þegar ég sé fullorðið fólk dásama hann á Facebook og kvíða í hvert skipti sem ég heyri hann í útvarpinu.“

Málið sagt fyrnt eftir fjögur ár

Konan tilkynnti málið til  lögreglu sumarið 2021 en meint árás átti sér stað árið 2017. Málið var sagt fyrnt og ekki tekið til rannsóknar. Sigrún Jóhannsdóttir lögmaður staðfestir í samtali við DV að hún hafi séð gögn málsins, meðal annars áverkamyndir sem konan tók sjálf. Að sögn Sigrúnar sýna þær myndir áverka í andliti, þ.e. mar á kinnbeini og auga. Konan ræddi málið við vinkonu sína árið 2019 og sendi henni myndirnar. Var það tveimur árum áður en neikvæð umræða um Ingó hófst opinberlega.

Ásakanir þessarar konu og kæra hennar bar stuttlega á góma í aðalmeðferðinni í meiðyrðamáli Ingós gegn Sindra Þór Sigríðarsyni á mánudag. Lítið var þó fjallað um málið þar vegna þess að þær fullyrðingar Sindra sem Ingó stefnir honum fyrir eru af öðrum toga, snúast um samfarir við ólögráða einstaklinga en ekki eiginleg lögbrot.

Konan segist ekki treysta sér til að koma fram undir nafni né bera vitni í meiðyrðamálum Ingós vegna neikvæðrar umræðu um þolendur. Hún segir í skilaboðum til DV:

„Ég kærði Ingó síðasta sumar fyrir ofbeldi og gaf skýrslu hjá lögreglunni en málið var þá orðið fyrnt. Ég á myndir af áverkunum og lét lögreglu fá þær. Það voru líka vitni sem ég hefði getað kallað til. Ég treysti mér ekki til þess að bera vitni í dómsmálinu eða koma fram undir nafni og það er ekki vegna þess að ég hræðist Ingó sjálfan, hann veit hvað gerðist þessa nótt og í framhaldinu, heldur vegna þess hversu óvægin og ljót öll opinber umræða hefur verið. Ég hræðist að það verði gert lítið úr mér eða mér ekki trúað. Ég hef setið og hlustað á vinnufélaga mína verja Ingólf og tala um að konur verði að kæra og að svona mannorðsmorð séu ekki í lagi. En ég kærði og það breytti engu. Núna eftir dómsmálið er ég búin að sjá fjölskyldumeðlimi og kunningja mína skrifa mjög ljóta hluti opinberlega um þær konur sem hafa sakað Ingó um ofbeldi og þannig mig sjálfa. Ég er heldur ekki tilbúin að nafnið mitt verði alltaf tengt við mál Ingó og að fólk á netinu sé að rífast um þessa persónulegu og erfiðu reynslu mína. Ég vil ekki þurfa að mæta í vinnuna eða hitta fólk og vita að það hugsi annað hvort hvort æ greyið stelpan eða stelpan sem var að ljúga.“

Dómur verður kveðinn upp í meiðyrðamáli Ingós gegn Sindra Þór Sigríðarsyni á næstu dögum. Framundan eru réttarhöld í meiðyrðamáli Ingós gegn Silju Björk Björnsdóttur.

Hafnar því að kæra sé til staðar á Ingó

Þó að konan hafi tilkynnt atvikið til lögreglu og sóst eftir því að kæra vegna þess virðist eiginlega kæra ekki vera til staðar. Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður Ingólfs, staðfestir að engin kæra gegn honum sé til.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“
Fréttir
Í gær

Haukur afplánar 5 ára dóm og segist ranglega sakaður um tilraun til manndráps – „Af hverju er mér sleppt daginn eftir og ég labba frjáls í eitt ár?“

Haukur afplánar 5 ára dóm og segist ranglega sakaður um tilraun til manndráps – „Af hverju er mér sleppt daginn eftir og ég labba frjáls í eitt ár?“
Fréttir
Í gær

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum