Bróðir Kristins Hauks Jóhannessonar, sem lést í bílslysi árið 1973, er leigubifreið fór út af Óshlíðarvegi, segir það vera mikil mistök að málið hafi ratað í fjölmiðla á þessum tímapunkti. Segir hann að með því sé búið að spilla rannsókninni.
„Þetta er kjánaskapur og ekkert annað,“ segir hann. Í gær birti Lögreglan á Vestfjörðum eftirfarandi tilkynningu um málið:
„Föstudaginn 27. maí sl. voru líkamsleifar grafnar upp úr kirkjugarði á Vestfjörðum.
Um var að ræða líkamsleifar einstaklings sem lést af slysförum fyrir nokkrum áratugum síðan. Lögreglustjórinn á Vestfjörðum hafði áður, með vitund og samþykki nánustu aðstandenda hins látna, fengið dómsúrskurð til þessara aðgerða.
Hópur lögreglumanna af Vestfjörðum, ásamt tveimur tæknideildarmönnum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, auk réttarlæknis og aðstoðarmanns hans, unnu við uppgröftinn.
Aðdragandi þessarar aðgerðar er sá að lögreglunni á Vestfjörðum hafði borist ábending um að umrætt slysaatvik hafi ekki verið upplýst nægjanlega á sínum tíma. Þrátt fyrir að langur tími sé liðinn eru taldar líkur á því að hægt sé að upplýsa nánar um tildrög atviksins sem um ræðir.
Líkamsleifarnar eru nú til rannsóknar hjá réttarlækni og beðið er niðurstöðu þeirrar vinnu. Óvíst er hversu langan tíma þessi réttarlæknisfræðilega rannsókn tekur og ótímabært að veita frekari upplýsingar um mál þetta.“
Þórólfur Hilbert Jóhannesson, sem er 13 árum yngri en Kristinn og hitti hann aldrei í lifanda lífi, vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið við DV. Segist hann hafa verið í sambandi við aðra fréttamenn vegna málsins í um eitt og hálft ár og sagan öll muni birtast í fyllingu tímans. Hins vegar hafi verið afar ótímabært núna að greina frá málinu í fjölmiðlum.
Ekki tókst að ná símasambandi við Lögregluna á Vestfjörðum við vinnslu fréttarinnar en DV sendi embættinu skriflega fyrirspurn þar sem þessi afstaða Þórólfs var reifuð og spurt hvort birting tilkynningarinnar hafi verið mistök eða hvort málið hafi hvort eð er verið á leið í fjölmiðla eftir öðrum leiðum.
Þórólfur, sem var sjö ára er Kristinn lést, var samfeðra honum. Hann skrifaði um Kristinn í Facebook-hópi í janúar árið 2021. Virðist það vera um sama leyti og rannsókn málsins hófst, sem leiddi til uppgraftar á líkamsleifunum í síðustu viku. Kristinn var ættleiddur og því hittust bræðurnir ekki. Þórólfur skrifar:
„Ég vona að það sé í lagi að setja þetta hérna inn. Þetta er Kristinn Haukur Jóhannesson f. 18 Febrúar 1954 á bænum Nesjavöllum við Þingvallavatn, dáinn 23.september 1973 í Óshlíð við Bolungarvík 19 ára gamall. Hann var ættleiddur vestur á Barðaströnd sumarið 1955, u.þ.b eins og hálfsárs. Hann Kristinn átti þá tvö eldri systkyni fædd 1951 og 52. Við erum samfeðra, en pabbi hans er frá Króki við Þingvallavatn og heitir Jóhannes Guðmundsson og móðir sem er með honum á einni myndinni hét Svava Jónsdóttir. Kristinn á 8 blóðskyld systkyni í dag, en þau voru 9. Kristinn á eina systur á Barðaströnd. Ég frétti af Kristni bróður mínum á þrítugsaldri, en það hvíldi mikil leynd og þöggun yfir hans tilveru. Viðkvæm mál og erfið. En ég hef núna með leyfi föður míns og Kristins sem er enn á lífi, verið að grafa upp minningar og ljósmyndir um bróður minn sem ég aldrei hitti.“
Með færslunni birtir Þórólfur átta ljósmyndir af Kristni.
Kristinn lést er leigubíll fór út af Óhlíðarvegi en auk hans voru í bílnum leigubílstjóri og ung stúlka sem sat frammi í. Bílstjórinn og stúlkan sluppu lítið meidd en Kristinn lét lífið er bíllinn fór út af og valt niður hlíðina. Kristinn lá í aftursætinu og var að sögn bílstjórans mjög drukkinn. Bílstjórinn ræddi við Vísir.is og Mannlíf í dag og þar segist hann undrast rannsóknina. Við Mannlíf segir hann: „Svona mál hljóta að vera glæpamál. Þetta er einsdæmi í sögunni og aðeins gert í glæpamálum. Þá er semsagt verið að ýja að því að þetta hafi verið morð. Þetta er furðulegt fyrirbæri.“
Segir hann að honum þyki „fyrir neðan allar hellur“ að málið sé rannsakað núna á ný og líkamsleifar Kristins grafnar upp. Segir hann þetta vera eitthvert einkamál lögreglustjórans á Vestfjörðum.
Fjölskylda Kristins hefur lengi haft efasemdir um að dauða Kristins hafi borið að með þeim hætti sem úrskurðað var á sínum tíma. Hefur fólkið haft efasemdir um að bíllinn hafi í raun oltið niður hlíðina, þar sem hann hafi verið of heillegur. Réttarlæknir sem mun rannsaka líkamsleifar Kristins mun reyna að úrskurða hvort áverkar á honum hafi hlotist í bílslysi eða með öðrum hætti.