fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Fréttir

„Faðir frelsissvipti barnið í marga sólarhringa“ og setti staðsetningarbúnað í síma – Sjötta kvörtunin af tíu

Erla Hlynsdóttir
Mánudaginn 30. maí 2022 10:29

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ein af tíu mæðrum sem hefur sent kvörtun til embættis Landlæknis vegna vinnubragða matsmanns í forsjármáli segir í kvörtuninni að matsmaður líti framhjá áralöngum ofsóknum föður og kenni móður um kvíða barnsins sem augljóst er að tengist ofsóknarhegðun og stjórnun föður, auk þess sem upphaf þeirrar andstöðu barnsins að umgangast föður má rekja til þess að faðir frelsissvipti barnið í marga sólarhringa sem refsingu við því að vilja vera meira hjá mér og minna hjá honum.“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Líf án ofbeldis sem sagt var frá um miðjan mánuðinn en þar kom fram að alls tíu mæður hafa sent kvörtun til embættis Landlæknis vegna „ófaglegra vinnubragða og hlutdrægni sálfræðinga sem taka að sér hlutverk dómkvaddra matsmanna og sérfróðra meðdómsmanna í forsjármálum.“  Umræddir sálfræðingar eru þrír, þau Guðrún Oddsdóttir, Ragna Ólafsdóttir og Gunnar Hrafn Birgisson.

DV hefur óskað eftir viðbrögðum frá öllum þremur matsmönnunum – Guðrúnu, Rögnu og Gunnars Hrafns – vegna umræddra kvartana en engin svör hafa borist.

Sjá einnig: Tíu mæður lýsa „ófaglegum vinnubrögðum og hlutdrægni“ þessara matsmanna í forsjármálum og leita til Landlæknis

Afrit af þessum tíu kvörtunum fylgdu tilkynningunni frá Líf á ofbeldis sem eru baráttusamtöku mæðra og uppkominna barna sem krefjast þess að börn séu vernduð gegn ofbeldi í umgengnis- og forsjármálum.

Sjá einnig: Þetta eru spurningarnar sem matsmennirnir þrír neita að svara

Kvörtunin sem greint er frá hér að ofan er frá Andreu Splidt Eyvindsdóttur vegna starfa Guðrúnar Oddsdóttur í forsjármáli og var send til embættis landlæknis þann 30. apríl 2021.

Þar segir ennfremur að faðir hafi mætt í skóla til barnsins og „barnið upplifði það ógnvekjandi og óttaðist barnið að faðirinn myndi frelsissvipta hana aftur í skóla og ræna. Varð skólasókn hennar því léleg, meðal annars vegna hræðslu barnsins við eltihrellingar föður. Faðir setti staðsetningarbúnað í síma barnsins og fylgdist með öllu.“

 

Afrit af kvörtun Andreu Splidt Eyvindsdóttur vegna starfa Guðrúnar Oddsdóttur í heild sinni:

 Guðrún Oddsdóttir kom að forsjármáli milli mín og barnsföður míns árið 20XX, sem matsmaður. Ég tel að matsmaður hafi gerst hlutdræg með sjónarmiðum föður, auk þess að styðjast við fordómafullar hugmyndir um þolendur ofbeldis sem standast ekki kröfur um faglega þekkingu.  Ég tel að matsmaður notist við hugmyndir í sinni matsgerð, sem má heimfæra undir kenningar um  Parental Alienation Syndrome, sem er meginuppistaðan í ásökun föður auk þess sem beiðni hans um matsgerð snerist að mestu um að athuga hvort barnið væri haldið slíku heilkenni (sjá bls. x í matsgerð og dómsskjal x). Ég tel athugavert að matsmaður hafi orðið við þessari beiðni yfir höfuð, að kanna hvort 14 ára gamalt barn sé haldið þessu heilkenni, af eftirfarandi ástæðum: 

Þessi kenning hefur víðast verið sett í flokk ruslvísinda (sjá fylgiskjal x) af fræðafólki og verið hafnað (sjá fylgiskjal x) af öllum leiðandi samtökum innan geðlæknisfræði, sálfræði og læknisfræði á Vesturlöndum vegna vöntunar á raunprófunum eða klínískum athugunum sem styðja hana. Auk þess er varað sérstaklega við notkun slíkra hugmynda við úrlausn í forsjármálum þar sem barn hafnar umgengni við foreldri,  í greinargerð með íslenskum barnalögum (5.1.6). Þess má reyndar geta að ýmsar vísbendingar eru til staðar um að það sé faðir sem tali illa um mig við barnið, en ekki öfugt, en í viðtali hjá sýslumanni segir dóttir mín að faðir tali illa um mig, en segir að ég tali ekki illa um föður (sjá dómsskjal x). Matsmaður kemst engu að síður að þeirri niðurstöðu að ég sé ábyrg fyrir vanlíðan barnsins í samvistum við föður. 

Matsmaður lítur framhjá áralöngum ofsóknum föður sem hann hefur stundað, með bréfaskriftum um meinta vanhæfni mína til barnaverndar og sýslumanns (sjá fylgiskjal x). Faðir ásakar mig um að ala á kvíða barnsins, og skrifar um það með greinargerðum í tugum blaðsíðna. Þessir tölvupóstar og greinargerðir hafa borist nánast vikulega til yfirvalda árum saman. Matsmaður kennir mér um kvíða barnsins sem augljóst er að tengist ofsóknarhegðun og stjórnun föður, auk þess sem upphaf þeirrar andstöðu barnsins að umgangast föður má rekja til þess að faðir frelsissvipti barnið í marga sólarhringa sem refsingu við því að vilja vera meira hjá mér og minna hjá honum (sjá dómsskjal x).  Faðir ofsótti eldra barn mitt, mætti í vinnuna til hans og fleira (sjá dómsskjal x). Faðir mætti í skóla og barnið upplifði það ógnvekjandi og óttaðist barnið að faðirinn myndi frelsissvipta hana aftur í skóla og ræna. Varð skólasókn hennar því léleg, meðal annars vegna hræðslu barnsins við eltihrellingar föður. Faðir setti staðsetningarbúnað í síma barnsins og fylgdist með öllu (sjá dómsskjal x). Stöðugar kvartanir föður til yfirvalda, hafa þann tilgang að vera á undan til að fegra sjálfan sig. 

 Fjöldi dómsskjala sem matsmaður hafði aðgang að sýndu að faðir hefur sjúklega þörf til þess að stjórna öllu í umhverfi sínu. Á sambúðartíma okkar setti hann fjölskyldumeðlimum fljótt strangar og ítarlegar hegðunarreglur án nokkurs sveigjanleika. Væri þeim ekki fylgt í einu og öllu mættu börnin mín mikilli og óútreiknanlegri reiði hans, jafnvel þó reglan hafi aldrei verið kynnt þeim áður. Þannig var ógnin alltaf raunveruleg og alltaf yfirvofandi. Faðir sem í upphafi sýndi eldri börnum mínum mikla og jákvæða athygli hætti því fljótt eftir að við fluttum saman og fór að finna að öllu í þeirra fari. Hann leit á viðkvæmt geðslag þeirra sem veikleikamerki, eitthvað sem þyrfti að rækta úr þeim með hörku og heraga. Eðli málsins samkvæmt fór sú „uppeldisaðferð“ afar illa með börnin. Bæði eldri börnin mín gerðu andlegu ofbeldi hans góð skil í umsögnum sem matsmaður hafði aðgang að (sjá dómsskjöl x). Matsmaður hafði aðgang að gríðarlegu magni dómsskjala, þar á meðal umsagna frá í það minnsta 8 aðilum sem þekktu fjölskylduna og vitnuðu um gríðarlega vanlíðan og andlegt ofbeldi gagnvart börnum mínum meðan við vorum saman (sjá dómsskjöl x). Þrátt fyrir þetta lætur matsmaður málið líta þannig út að upphaf erfiðleika dóttur minnar megi rekja til þess þegar dóttir mín vildi minnka umgengni við föður og hann frelsissvipti hana dögum saman. Raunin var að vanlíðan og ofbeldið átti sér langa sögu og barnið hefur sýnt merki þess að vera þolandi ofbeldis frá unga aldri. 

Matsmaður hunsar jákvæða vitnisburði um mig frá vinum og vinnufélögum, en slíkir vitnisburðir eru í mótsögn við allar þær ásakanir sem faðir ber á mig (sjá dómsskjal x). 

 Ég sagði frá því í viðtölum við matsmann að barnsfaðir hefði beitt mig andlegu, kynferðislegu og fjárhagslegu ofbeldi, auk líkamlegs ofbeldis í eitt skipti, sem í niðurstöðukafla virðist ekki hafa nein áhrif á mat á forsjárhæfni föður. Umsagnir í dómsskjölum (dómsskjöl x)  renna stoðum undir mína frásögn. Mér finnst ekki eðlilegt að svona saga um gríðarlegt ofbeldi gagnvart móður barnsins hafi engin áhrif á forsjárhæfni föður. 

 Á bls. x í matsgerð, kemur fram að barnið sýndi mikinn ótta við að faðir kæmist yfir trúnaðargögn um hana hjá sálfræðingi, sem styður frásögn móður og barns um að barnið upplifi að faðir ráðist með offorsi gegn henni ef ekki er allt eftir hans höfði, en þessar upplýsingar tekur matsmaður ekki til greina í niðurstöðum. Þessum ótta barnsins var tekið mjög alvarlega af læknum á Heilsugæslunni og þótti mikilvægt að meðferðarsamband barnsins og meðferðaraðila yrði ekki stofnað í hættu með afhendingu á skráningu samskipta barnsins við sálfræðing þess.  Það var sameiginlegt álit læknanna að réttur barnsins til að njóta trúnaðar væri sterkari en réttur foreldra barnsins til afhendingu trúnaðargagna (sjá dómsskjal x).

 Á bls. x í matsgerð kemur fram að ég hafi ekki reynt að koma á umgengni við föður. Er þetta í hrópandi mótsögn við það að ég keypti sáttameðferð úti í bæ til að reyna að koma á samskiptum, áður en málið fór af stað hjá sýslumanni (sjá fylgiskjal x), auk þess sem í umsögnum má sjá vitnisburði um að ég hef hvatt dóttur mína til að fara í umgengni (sjá dómsskjal x). Í matinu áfellist matsmaður mig fyrir að fylgja afdráttarlausum fyrirmælum sálfræðings um að þrýsta ekki á barnið um að fara í umgengni, meðal annars vegna alvarlegs kvíða barnsins (sjá dómsskjal x  og bls.x  í matsgerð) þrátt fyrir að víða komi fram í viðtölum við marga mismunandi fagaðila að tilhugsunin um að þurfa að fara í  umgengni við föður veldur barninu vanlíðan og kvíða. Það kemur svo fram hjá barnageðlækni barnsins að kvíði þess hafi minnkað og líðan batnað eftir að barnið hætti að fara í umgengni til föðurs (sjá dómsskjal x) sem styður ákvörðun mína um að þrýsta ekki á að barnið fari í umgengni til föðurs.

Að lokum geri ég alvarlega athugasemd við það hvernig matsmaður dregur í efa frásögn dóttur minnar um ofbeldi föður. Er því kannski best lýst með því að í niðurstöðum er eingöngu fjallað um ásakanir um ofbeldið, í kafla um það hvort foreldrar munu virða umgengnisrétt við hvort annað (bls. x  í matsgerð). Matsmaður byggir á huglægu mati sínu fremur en mati á því sem fram kemur í gögnum málsins. Matsmaður heldur því fram á bls. x í matsgerð að barnið hafi aldrei sagt frá ofbeldi og áfellist mig sem móður fyrir að hafa enn áhyggjur. Þetta gerir hún þrátt fyrir að skýrt komi fram í gögnum (sjá dómsskjal x) að barnið hafi sagt frá kynferðisofbeldi eins og lögregla skilgreinir það. Fullyrðingar matsmanns um að barnið hafi aldrei sagt frá ofbeldi eru í greinilegri andstöðu við það að barninu var vísað af barnavernd í Barnahús (sjá dómsskjal x), sem var ekki gert að ástæðulausu. Einnig kemur fram í gögnum frá sýslumanni (sjá dómsskjal x) frásagnir stúlkunnar hvernig hann virðir ekki mörk og kyssti hana á munninn. Matsmaður sagði í viðtali við mig að það væri ekkert óeðlilegt við það af því hún eigi frænkur á Vestfjörðum sem kyssa á munninn. Matsmaður segir að barnið hafi búið sér til minningu, en rökstyður ekkert hvers vegna hún leggi ekki trúnað á orð barnsins. Einnig segir matsmaður að barnið nefni engin dæmi um ofbeldi, en örlitlu neðar segir matsmaður að barnið segi frá atvikum sem hafi átt sér stað þegar hún var mjög ung, og geti því ekki verið að hún muni eftir þeim sjálf. 

Sjá einnig: „Hló að móður þegar hún lýsti frásögn sinni af mjög alvarlegu ofbeldi“ – Ein af kvörtununum tíu í heild sinni

Sjá einnig: Segir móður hafa „mistúlkað orð dóttur minnar sem voru meðal annars að hana klæjaði í píkunni því „pabbi skegg kitlar““ – Önnur af kvörtununum tíu í heild sinni

Sjá einnig: Móðir segir að sonur sé „kinnfiskasoginn og horaður eftir umgengni við föður, því þar fór hann svangur að sofa“ – Þriðja kvörtunin af tíu í heild sinni

Sjá einnig:  Helga Sif segir matsmann hafa gaslýst dóttur sína – „Hvað er eiginlega að Helgu?”- Fjórða kvörtunin af tíu

Sjá einnig: Bryndís segir matsmann gera henni upp „falskar minningar“ um ofbeldi og vænir hana um lyfjaneyslu – Fimmta kvörtunin af tíu

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt