fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fréttir

Helga Sif segir matsmann hafa gaslýst dóttur sína – „Hvað er eiginlega að Helgu?”- Fjórða kvörtunin af tíu

Erla Hlynsdóttir
Þriðjudaginn 24. maí 2022 12:30

Samsett mynd/Getty.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ein af tíu mæðrum sem hefur sent kvörtun til embættis Landlæknis vegna vinnubragða matsmanns í forsjármáli segir í kvörtuninni að matsmaður hafi mikið þrýst á að dóttir hennar hitti föður sinn þrátt fyrir upplifun af ofbeldi af hans hálfu.

„Matsmaður endar með að lesa yfir dóttur minni hve mikilvæg tengsl eru, að fjölskyldan hennar verði ekki heil ef þennan púslbita vantar. Tel ég þetta vera gaslýsingu og ótrúlega vanvirðingu gagnvart barni sem er fullfært um að tjá sínar skoðanir,“ segir móðir í kvörtuninni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Líf án ofbeldis sem sagt var frá fyrir helgi en þar kom fram að alls tíu mæður hafa sent kvörtun til embættis Landlæknis vegna „ófaglegra vinnubragða og hlutdrægni sálfræðinga sem taka að sér hlutverk dómkvaddra matsmanna og sérfróðra meðdómsmanna í forsjármálum.“ Umræddir sálfræðingar eru þrír, þau Guðrún Oddsdóttir, Ragna Ólafsdóttir og Gunnar Hrafn Birgisson.

Hugtakið gaslýsing hefur orðið sífellt meira áberandi í umræðunni á síðustu árum en það vísar til andlegs ofbeldis sem felst í að grafa undan veruleika annarrar manneskju og láta hana þannig efast um eigin tilfinningar og um staðreyndir.

Sjá einnig: Tíu mæður lýsa „ófaglegum vinnubrögðum og hlutdrægni“ þessara matsmanna í forsjármálum og leita til Landlæknis

Afrit af þessum tíu kvörtunum fylgdu tilkynningunni frá Líf á ofbeldis sem eru baráttusamtöku mæðra og uppkominna barna sem krefjast þess að börn séu vernduð gegn ofbeldi í umgengnis- og forsjármálum. DV hefur fjallað ítarlega um þessar kvartanir undanfarna daga.

Kvörtunin sem greint er frá hér að ofan er frá Helgu Sif Andrésdóttur vegna starfa Rögnu Ólafsdóttur sem matsmanns í forsjármáli og var send til embættis landlæknis þann 31. mars 2022.

Þar segir Helga Sif meðal annars að matsmaður hafi varpað ábyrgð á hana vegna framkomu föður í garð dóttur „… þegar hún lýsir hvernig hann hafi komið við sig á kynferðislegan hátt. Matsmaður spyr hvort henni finnist ekki undarlegt að ég hafi ekki stoppað hann, og virðist það vera gert bæði til þess að láta hana efast um að eitthvað óeðlilegt hafi gerst, og eins setja skömm á mig, móður hennar, fyrir að hafa ekki getað staðið upp gegn föður þegar hann var að beita ofbeldi. Þetta sýnir vanþekkingu matsmanns á viðbrögðum þolanda þegar þau eru beitt ofbeldi.“

Sjá einnig: „Hló að móður þegar hún lýsti frásögn sinni af mjög alvarlegu ofbeldi“ – Ein af kvörtununum tíu í heild sinni

DV óskaði fyrir helgi eftir viðbrögðum frá öllum þremur matsmönnum – Guðrúnu, Rögnu og Gunnari Hrafni – vegna umræddra kvartana. Auk þess hefur DV óskað eftir öðrum upplýsingum frá þeim um störf þeirra sem matsmenn og/eða sérfróðir meðdómendur, svo sem hversu mörg mál þau taka að sér að jafnaði árlega, hvaða hæfni þau hafa til að bera til að sinna þessum málum og hvort áður hafi verið kvartað undan störfum þeirra. Engin svör hafa borist.

Sjá einnig: Segir móður hafa „mistúlkað orð dóttur minnar sem voru meðal annars að hana klæjaði í píkunni því „pabbi skegg kitlar““ – Önnur af kvörtununum tíu í heild sinni

Í umræddri kvörtun vegna starfa Rögnu segir ennfremur að móðirin setji spurningamerki við hvort það sé í verkahring matsmanns í forsjármáli að þvinga fram umgengni barns við foreldri.

„Matsmaður mætir heim til okkar og átti þaðan að fara með barnið til föður. Drengurinn er mjög staðfastur í því að vilja ekki fara, en matsmaður segir við drenginn að mamma hans vilji að umgengni fari fram, sem er ekki rétt því ég hef alltaf leyft honum að ráða ferðinni. Matsmaður skipar mér að klæða hann í skó, sem ég geri á meðan að hann og stóra systir hans gráta bæði,“ segir í kvörtuninni til embættis landlæknis.

Sjá einnig: Móðir segir að sonur sé „kinnfiskasoginn og horaður eftir umgengni við föður, því þar fór hann svangur að sofa“ – Þriðja kvörtunin af tíu í heild sinni

Þar segir Helga Sif ennfremur að í viðtölum hafi matsmaður ítrekað reynt að koma samviskubiti yfir á stúlkuna fyrir að vilja ekki hitta föður sinn. Meðal annars hafi matsmaður sagt við hana að faðir barnanna sakni þeirra og gráti oft vegna þess.

„Matsmaður segir við [barnið] að hann er einn púslubiti fjölskyldunnar og að henni mun aldrei líða eins og hún sé heil ef hún hafnar umgengni við föður sinn. Matsmaður sagðist sjálf hafa rofið sín eigin tengsl við sinn eigin föður í æsku, og það hafi verið henni erfið reynsla, og varpar síðan eigin reynslu yfir á dóttur mína, hvort hún ætli að gera sömu mistök. Dóttir mín upplifði mikla reiði gagnvart þessu, og eins og var verið að þvinga hana að skipta um skoðun,“ segir Helga Sif í kvörtuninni.

Hún segir ljóst af framkomu matsmanns við sig og börnin að markmiðið hafi verið að koma á umgengni. „Var þetta gert með að beita okkur kúgun og þvingun. Aldrei sýndi matsmaður afstöðu okkar skilning eða virðingu, né virti ósk þeirra um að vilja ekki hitta föður,“ segir hún. Þá segir í kvörtuninni að þegar Ragna var vitni í dómnum hafi hún byrjað að ræða við meðdómara sem einnig er sálfræðingur um þeirra skoðanir á sér, sem öðrum dómara hafi þótt „óviðeigandi og út fyrir öll mörk og var stoppað af.“

Helga Sif sagði nýverið sögu sína í þættinum Eigin Konur hjá Eddu Falak og má nálgast hann hér.

 

Afrit af kvörtun Helgu Sifjar Andrésdóttur vegna starfa Rögnu Ólafsdóttur má lesa hér í heild sinni:

Framkoma matsmanns við yngsta barnið:

Þegar kom að því að matsmaður vildi hafa umgengni við föður undir eftirliti var það gert með þvingun og lygi, og gegn vilja barnsins. Ég set spurningamerki við hvort það sé yfir höfuð í verkahring matsmanns í forsjármáli að þvinga fram umgengni barns við foreldri. Matsmaður mætir heim til okkar og átti þaðan að fara með barnið til föður. Drengurinn er mjög staðfastur í því að vilja ekki fara, en matsmaður segir við drenginn að mamma hans vilji að umgengni fari fram, sem er ekki rétt því ég hef alltaf leyft honum að ráða ferðinni. Matsmaður skipar mér að klæða hann í skó, sem ég geri á meðan að hann og stóra systir hans gráta bæði. Matsmaður leiðir svo drenginn út í bíl þar sem hún setur hann í framsæti bílsins og ekki með púða, sem er ekki í samræmi við öryggisreglur um börn í bíl.

Að umgengni lokinni kemur drengurinn heim í uppnámi, en matsmaður reynir samt sem áður að fá hann til að samþykkja umgengni helgina á eftir, sem hann neitar. Matsmaður tekur þá mig, undirritaða, afsíðis og reynir að tala mig til. Matsmaður segir að ég sé að bregðast í mínum forsjárskyldum að geta ekki talað börnin til og koma umgengni að, að það væri núna mitt hlutverk fyrir næstu helgi. Ég sagðist ekki geta farið svona harkalega að því, þar sem sjúkdómseinkenni drengsins hafi nú þegar blossað upp í aðdraganda þessara heimsóknar. Matsmaður hafði vitneskju um alvarlegan og sársaukafullan sjúkdóm sem bregst illa við streitu og álagi, en tók ekkert tillit til þess.

Matsmaður kennir mér um að valda barninu kvíða fyrir umgengnina. Umgengnin næstu helgi gat svo ekki farið fram vegna þess að sjúkdómseinkenni drengsins jukust í kjölfar síðustu heimsóknar/umgengni (sjá meðfylgjandi læknisvottorð).

Framkoma matsmanns við miðjubarnið:

Í viðtölum var matsmaður ítrekað að reyna að koma samviskubiti yfir á stelpuna fyrir að vilja ekki hitta föður. Meðal annars sagði matsmaður við hana að faðir sakni þeirra og gráti oft vegna þess hvað hann sakni þeirra mikið. Matsmaður segir við [barnið] að hann er einn púslubiti fjölskyldunnar og að henni mun aldrei líða eins og hún sé heil ef hún hafnar umgengni við föður sinn. Matsmaður sagðist sjálf hafa rofið sín eigin tengsl við sinn eigin föður í æsku, og það hafi verið henni erfið reynsla, og varpar síðan eigin reynslu yfir á dóttur mína, hvort hún ætli að gera sömu mistök. Dóttir mín upplifði mikla reiði gagnvart þessu, og eins og var verið að þvinga hana að skipta um skoðun.

Samskipti matsmanns við elsta son minn:

Sonur minn bjó með föður hinna barnanna, í 12 ár og varð fyrir miklu ofbeldi af hans hálfu. Matsmaður kom í heimsókn til okkar og sagði við son minn að hún myndi svo vilja fá að ræða við hann líka, en hann var aldrei kallaður í viðtal. Þegar ég spurði út í það sagði matsmaður hann einfaldlega ekki koma þessu máli við, þar sem þau eru ekki alsystkini. Sonur minn var þá búinn að gera alvarlega tilraun að taka eigið líf, vegna aðstæðna sem hann bjó við á heimilinu þar sem faðir beitti honum ofbeldi og lagði honum í einelti. Geðlæknir hans frá BUGL var fenginn til þess að skrifa skýrslu (sjá viðhengi) til að leggja inn í matið, en þegar kemur að því þá neitar matsmaður að taka við skýrslunni. Mér var mjög brugðið og sendi lögmanninum mínum email. Í kjölfar þess sendi hann fyrirspurn varðandi þetta á Rögnu, sem svarar “Hvað er eiginlega að [nafn móður]? Afhverju spyr hún mig ekki ef það er eitthvað í stað þess að hlaupa klagandi til þín?”. Sjá meðfylgjandi myndir af þessum samskiptum. Ég geri alvarlega athugasemd við ófagleg orðaskipti matsmanns við lögmann minn, um mig og að hún segi að það sé eitthvað að mér vegna þess að ég leiti til míns lögmanns með mínar áhyggjur af að hún neiti að fjalla um gögn í matsgerð.

Varðandi matsgerðina:

Á bls. X skrifar matsmaður að, að sögn lögmanns móður treysti börnin sér ekki í umgengni við föður. Í næstu setningu segir matsmaður að hann “mun reyna að koma umgengni að”. Það er því skýrt frá byrjun hver ætlun matsmanns var og að rödd mín og barnanna voru höfð að engu. Á bls X í kaflanum „umgengni föður við börn“ lýsir matsmaður svo sjálfur hversu hart var gengið á því að koma börnunum í umgengni við föður. Hér var matsmaður að koma samviskubit yfir á mig, segja að það væri mér að kenna að börnin vildu ekki umgengni, því ég var ekki nógu ákveðin í að senda þau. Eins og kom marg oft fram í viðtölum og kemur líka fram í matsgerðinni hef ég alltaf sagt við börnin að ég styð þau í því sem þau kjósa að gera, en þar sem þau eru bæði hrædd við föður vegna ofbeldishegðunar hans gagnvart mér, þeim og bróður þeirra, vilja þau einfaldlega ekki umgangast föður. Þessu hafnaði matsmaður og reyndi ítrekað að pína þau, og helst yngsta barnið, í umgengni. Eftir eitt skipti, sem lýst var hér ofar, var mér mjög brugðið og í mikilli vanlíðan vegna framkomu matsmanns við mig, sem ég ræddi við lögmann minn. Ég upplifði mig kúgaða út í horn af matsmanni og að eina leiðin til þess að sýna mig góða væri að segjast vilja að börnin fari í umgengni, og láta það gerast, sem ég vissi þó væri gegn þeirra óskum.

Lýsing matsmanns á hvernig var farið að því að koma umgengni að, og eins upplifun drengsins á meðan að umgengni stóð, eru í engu samræmi við hvernig þetta fór fram (lýst hér ofar). Reynir matsmaður hér að fegra bæði framkomu hans við okkur öll, en eins líðan drengsins. Eins og nefnt var hér fyrir ofan var þetta ótrúlegt álag, sem drengurinn þoldi illa þá sérstaklega vegna undirliggjandi sjúkdóms hans. Matsmaður braut hér harkalega á rétt barnsins mins, þegar hann fór fram með offorsi að koma umgengni að.

Neðst á bls. X, í viðtali við dóttur mína, leggur matsmaður ábyrgð yfir á mig fyrir framkomu föður við hana, þegar hún lýsir hvernig hann hafi komið við sig á kynferðislegan hátt. Matsmaður spyr hvort henni finnist ekki undarlegt að ég hafi ekki stoppað hann, og virðist það vera gert bæði til þess að láta hana efast um að eitthvað óeðlilegt hafi gerst, og eins setja skömm á mig, móður hennar, fyrir að hafa ekki getað staðið upp gegn föður þegar hann var að beita ofbeldi. Þetta sýnir vanþekkingu matsmanns á viðbrögðum þolanda þegar þau eru beitt ofbeldi.

Á bls 28 í sama kaflanum, kemur enn og aftur fram hversu mikið matsmaður þrýsti á að dóttir mín verði að hitta föður. Í þessu viðtali er hennar afstaða og upplifun af ofbeldi af hans hálfu einfaldlega hunsuð, og matsmaður endar með að lesa yfir dóttur minni hve mikilvæg tengsl eru, að fjölskyldan hennar verður ekki heil ef þessi púslbiti vantar. Tel ég þetta vera gaslýsing og ótrúleg vanvirðing gagnvart barni sem er fullfært um að tjá sínar skoðanir. Framkoma matsmanns enn og aftur hlutdræg föður, og gengur matsmaður ítrekað mun lengra en að einfaldlega leggja mat á stöðu og afstöðu þeirra sem eiga hlut í málinu.

Ég geri athugasemd við að matsmaður kalli hegðun föður gagnvart eldri syni mínum, harðræði, en taldi enga ástæðu til að ræða við son minn þar sem hann kæmi málinu ekki við og neitaði að taka við greinargerð frá BUGL þar sem ofbeldi föður var staðfest.

Það er ljóst í framkomu matsmanns við okkur öll, undirritaða og barnanna minna, að markmið hans var að koma umgengni að. Var þetta gert með að beita okkur kúgun og þvingun. Aldrei sýndi matsmaður afstöðu okkar skilning eða virðingu, né virti ósk þeirra um að vilja ekki hitta föður.

Þegar Ragna var vitni í dómnum þá byrjaði Ragna að ræða við meðdómara, Þorgeir Magnússon, sem einnig er sálfræðingur, um þeirra skoðanir á mér sem öðrum dómara þótti óviðeigandi og út fyrir öll mörk og var stoppað af.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Egill Þór er látinn

Egill Þór er látinn
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“
Fréttir
Í gær

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“
Fréttir
Í gær

Kvikmyndagerðarmaður auglýsir eftir uppljóstrara – „Ef þú býrð yfir upplýsingum sem snerta okkur öll…“

Kvikmyndagerðarmaður auglýsir eftir uppljóstrara – „Ef þú býrð yfir upplýsingum sem snerta okkur öll…“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íslenskur skurðlæknir vinnur við að bjarga slösuðum eftir árásina í Magdeburg

Íslenskur skurðlæknir vinnur við að bjarga slösuðum eftir árásina í Magdeburg