Valur fagnaði í gærkvöld fyrsta Íslandsmeistaratitli sínum í körfubolta í 39 ár, er liðið lagði Tindastól í oddaleik. KR-ingurinn Páll Sævar Guðjónsson óskaði Valsmönnum til hamingju með titilinn á Facebook í gærkvöld en Egill Helgason fjölmiðlamaður lagði þar orð í belg, sem olli fjörlegum umræðum. Kvartaði Egill þar undan fjárhagslegum yfirburðum Vals:
„Mér finnst það ekki smart hvernig Valur í skjóli auðs er að kaupa íþróttamenn í stórum stíl. Og ekki bara af því ég er fúll KR-ingur, í félagi sem ekki getur spilað þennan leik, heldur er þetta vont fyrir íþróttahreyfinguna.“
Grímur Atlason er stjórnarmaður í körfuknattleiksdeild Vals og brást hann ókvæða við þessum yfirlýsingum Egils. Sakar hann Egil um falsfréttaflutning:
„Hvaða rugl er þetta í þér maður? Veistu eitthvað um rekstur körfuboltaliða í dag? Veistu hvað ég og fjöldi annarra sjálfboðaliða leggjum á okkur til þess að reka deildina í Val? Þannig er þetta í öllum liðum. Gríðarlega dýr rekstur flestra liða í efstu deild – Njarðvík, Stjarnan, Tindastólll, Keflavík, ÍR, Grindavík, Þór Þorlákshöfn og já KR: þessi lið eru öll með 3-6 100% atvinnumenn. Óþolandi þessi mantra um að Valur sé öðruvísi en hin liðin í þessu efnum. Vissi ekki að þú værir maður falsfréttanna.“
Þess má geta að í Íslandsmeistaraliði Vals er að finna leikmenn og þjálfara úr sigursælu liði KR síðustu ára, þá Pavel Ermolinski og Kristján Acox. Sá síðarnefndi skipti yfir í Val í kjölfar launadeilu við KR. Þjálfari Vals, Finnur Freyr Stefánsson, vann marga Íslandsmeistaratitla sem þjálfari KR. Áður skipti Jón Arnór Stefánsson úr KR yfir í Val en hann hefur nú lagt skóna á hilluna.