Gísli Hauksson, einn stofnenda sjóðstýringafélagsins GAMMA, hefur verið dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa beitt fyrrverandi sambýliskonu sína ofbeldi fyrir tveimur árum. Þá var hann auk þess dæmdur til að greiða brotaþola 500 þúsund í miskabætur ásamt vöxtum frá 14 maí til dagsins í dag. Gísli játaði brot sín fyrir Héraðsdómi í síðustu viku en saksóknari í málinu lagði til áðurnefnda refsingu sem Héraðsdómur féllst á. Fréttablaðið greinir frá.
Brot Gísla taldist varða við grein 218, lið b, í almennum hegningarlögum en refsing fyrir slíkt brot getur verið allt að sex ára fangelsi.
Gísli játaði að hafi tekið konuna ítrekað kverkataki, skellt henni utan í vegg og þrengt að hálsi hennar svo hún átti erfitt með andardrátt.
Afleiðingarnar voru þær að konan tognaði á handlegg, hlaut ofreynslu á hálshrygg og brjósthrygg auk mikilla yfirborðs áverka á hálsi, öxl og upphandlegg.
Gísli stofnaði Gamma ásamt öðrum í júní 2008 en sagði skilið við fyrirtækið áratug síðar árið 2018. Hann starfaði sem forstjóri fyrirtækisins en seinustu árin einbeitti hann sér að því að stýra uppbyggingu félagsins erlendis í New York og London.
Þá gegndi hann um árabil trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokksins, sat meðal annars í miðstjórn og var um skeið formaður fjármálaráðs. Skömmu eftir að greint var frá kærunni um heimilisofbeldið lét hann af störfum fyrir flokkinn.