„Ég er formaður Landssambands hestamannafélaga og er með hesta á Skrauthólum. Þessu er augljóslega beint gegn okkur!“ segir Guðni Halldórsson, íbúi á Skrauthólum 2 við Esju, í samtali við DV.
Níðstöng með dauðum hrosshaus hefur verið reist á svæðinu. Á skrauthólum er rekið Sólsetrið, andleg stofnun sem Linda Mjöll Stefánsdóttir stofnaði. Undanfarið hafa nágrannar Sólsetursins lýst yfir megnri óánægju með sambýlið við íbúa á Sólsetrinu og kvartað undan miklu ónæði.
Er DV hafði samband við Lindu í morgun vissi hún ekkert um níðstöngina. Guðni segir að Linda sé ekki vandamálið: „Linda sjálf er ekki vandamálið. Heldur þessi starfsemi og fjöldi manns sem heldur þarna til og kallar sig skrauthólafjölskylduna. En hún lifir auðvitað á þessu.“
Bendir Guðni á að 15 manns búi á Sólsetrinu og einn íbúanna hafi haft í hótunum við nágranna í kjölfar neikvæðrar fjölmiðlaumfjöllunar um Sólsetrið.
Sjálfur er Guðni staddur erlendis en hann segir að Kristjana eiginkona hans hafi flúið að heiman í dag með börn og hunda hjónanna.
Níðstöngin er óneitanlega ógnvekjandi. Ofan í kjafti hrossins er upprúllað blað. Aðspurður segir Guðni á á blaðið sé ritað óskiljanlegt ljóð.
„Og enn gera yfivöld ekkert,“ segir Guðni og er langþreyttur á sambýlinu við íbúa Sólsetursins.
Ekki náðist í Lindu Mjöll Stefánsdóttur við vinnslu fréttarinnar.