Berglind Svavarsdóttir, lögmaður Þóru Arnórsdóttur, hefur krafist þess að embætti Lögreglustjórans á Norðurlandi Eystra verði dæmt vanhæft til að rannsaka Samherja-símamálið. Af þessum sökum frestast yfirheyrslur lögreglu yfir fjórum blaðamönnum sem hafa stöðu sakbornings í rannsókn Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra í málinu. Þetta eru þau Aðalsteinn Kjartansson, Þóra Arnórsdóttir, Þórður Snær Júlíusson og Arnar Þór Ingólfsson.
Þetta herma öruggar heimildir DV en ekki tókst að ná sambandi við Berglindi Svavarsdóttur, sem er í fríi, við vinnslu fréttarinnar. Málflutningur um vanhæfniskröfuna verður fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra næstkomandi mánudag og má vænta úrskurðar sama dag.
Málið snýst um rannsókn á stuldi á síma Páls Steingrímssonar, skipstjóra hjá Samherja, vorið 2021, og afritun á gögnum úr símanum. Gögn úr síma Páls eru talin hafa verið undirstaða að fréttaflutningi Stundarinnar og Kjarnans um framferði svokallaðrar skæruliðadeildar innan Samherja.
Lengi hefur staðið til að yfirheyra blaðamennina fjóra en ljóst er að engar yfirheyrslur verða yfir þeim fyrr en einhvern tíma eftir næsta mánudag.