Rússland á nú að hafa náð að skjóta upp eldflaug sinni er kennd er við Satan. Um er að ræða eldflaug sem getur skotið allt að 12 kjarnorkusprengjum í einu. Vladimir Pútín, forseti Rússlands, segir að umrædd eldflaug sé góð áminning „fyrir þá sem voga sér að hóta Rússlandi“.
Eldflaugin er kölluð Satan 2 en hún getur flogið tæpa 10 þúsund kílómetra og gæti eyðilagt svæði á stærð við Frakkland í einni svipan. Samkvæmt rússneskum ríkisfjölmiðlum tókst tilraunaflug eldflaugarinnar með prýði. Samkvæmt The Sun er eldflaugin er afar hraðskreið en hún er sögð hafa flogið um 5.800 kílómetra leið á einungis 15 mínútum.
Varnarmálaráðuneyti Rússlands montaði sig af því í dag að eldflaugin getur komist í gegnum hvaða eldflaugavarnakerfi sem er. „Þetta flug var fyrsta prófið. Þegar eldflaugin hefur lokið öllum prófum mun hún fara í notkun,“ segir í yfirlýsingu frá ráðuneytinu.
Pútín sat í makindum sínum í Moskvu, höfuðborg Rússlands, er hann horfði á tilraunaflug eldflaugarinnar í gegnum myndbandsbúnað. Eftir tilraunaflugið hélt Pútín tölu og hélt því fram að umrædd eldflaug ætti sér enga líka og að það yrði svoleiðis í mörg ár.