Lögreglurannsókn á málefnum Innheimtustofnunar sveitarfélaga virðist umfangsmikil. Meint misferli fyrrverandi forstjóra stofnunarinnar, Jón Ingvars Pálssonar, og fyrrverandi forstöðumanns útibús stofnunarinnar á Ísafirði, Braga Rúnars Axelssonar, snýst um að þeir hafi úthýst innheimtuverkefnum Innheimtustofnunar til einkafyrirtækis Braga, lögmannastofunnar Offico á Ísafirði. Hagnaður Braga af þessum æfingum er augljós en ekki er í fljótu bragði hægt að sjá hvað forstjórinn, Jón Ingvar Pálsson, græddi á þessum vinnubrögðum.
Rannsókn Ríkisendurskoðunar á vinnubrögðum stofnunarinnar leiddi til þess að Jón og Bragi voru báðir sendir í leyfi í desember síðastliðnum. Í kjölfar þeirrar rannsóknar varð lögreglurannsókn. Jón og Bragi voru síðan reknir úr störfum sínum.
Greint var frá því í fjölmiðlum fyrir helgi að Bragi hefði verið handtekinn í þágu rannsóknarinnar. Nú liggur fyrir að fleiri voru handteknir. Ólafur Hauksson, héraðssaksóknari, hefur staðfest ábendingar sem DV hefur fengið, þess efnis að Jón Ingvar Pálsson hafi einnig verið handtekinn.
Ennfremur staðfesti saksóknari að fyrrverandi forritari og kerfisfræðingur hjá stofnuninni hafi einnig verið handtekinn vegna rannsóknar málsins. Er því ljóst að að minnsta kostir þrír fyrrverandi starfsmenn stofnunarinnar, sem hefur það hlutverk að innheimta meðlagsgreiðslur, eru grunaðir um lögbrot og misferli.