Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Sigurður Hólm Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður á skammtímaheimili fyrir unglinga hjá Barnavernd Reykjavíkur, eru ekki sammála um ástæður starfsloka hans.
Sigurður skrifaði í gær færslu á Facebook sem vakti mikla athygli þar sem hann sagðist hættur störfum fyrir Barnavernd Reykjavíkur og að skammtímaheimilið sem hann veitti forstöðu, Hraunberg, hafi verið lokað.
„Ástæðan virðist aðallega sú að það mældist mjög alvarleg mygla í húsnæði Hraunbergs í desember 2021,“ segir Sigurður.
Hann gagnrýnir vinnubrögð Reykjavíkurborgar í málinu og gefur í skyn að uppsögn hans, og annars starfsfólks Hraunbergs, stafi af því að starfsfólk hafi gert athugasemdir við vinnuaðstæður. Þá segir Sigurður: „Starfsemin var lögð niður og flutt til einkaaðila“ og mátti skilja það sem svo að þjónustan ætti að vera hjá einkaaðila til frambúðar.
DV hafði í gærkvöldi samband við Heiðu Björgu Hilmisdóttur, formann velferðarráðs Reykjavíkur, vegna málsins en hún vísaði á Katrínu Helgu Hallgrímsdóttur, framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur. Katrín vísaði síðan nú í morgun á nýja færslu á Facebooksíðu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar þar sem fjallað er um málið „að gefnu tilefni,“ og er það augljós vísun í skrif Sigurðar.
Reykjavíkurborg birti nefnilega frétt í lok febrúar á vef sínum þar sem kemur fram að velferðarráð hafi samþykkt að hefja undirbúning að stofnun nýs vistheimilis fyrir átta börn og ungmenni þar sem þau geta dvalið til lengri eða skemmri tíma.
„Um nokkurt skeið hefur verið ljóst að brýn þörf er á að byggja upp stærra og öflugra úrræði en vistheimilið Hraunberg, sem Barnavernd Reykjavíkur hefur rekið í áratugi. Það úrræði er fyrir ungmenni sem þurfa tímabundna vistun utan heimilis vegna sérstakra aðstæðna og er þar pláss fyrir þrjú ungmenni og eitt neyðarpláss. Því úrræði verður nú lokað og samið við Klettabæ ehf. um vistun fyrir allt að fimm ungmenni þar til hið nýja úrræði verður komið á laggirnar,“ sagði í fréttinni sem birtist í febrúar.
Nýja færslan vísar að nokkru leyti í þessa eldri frétt. Þá segir þar ennfremur:
„Ákvörðun um lokun Hraunbergs bar nokkuð bratt að, en það var mat Barnaverndar Reykjavíkur að aðstæður í úrræðinu væru orðnar þannig að ekki var hægt að tryggja öryggi og aðbúnað þeirra barna sem þar dvöldu. Að baki því lágu margir samverkandi þættir, svo sem breyttur notendahópur og aðrar þjónustuþarfir barna sem í úrræðinu dvöldu frá því sem áður var. Þessu fylgdi aukið álag á alla starfsemina. Þá fylgdu fyrirvaralausum flutningum vegna myglu aukið álag, auk þess vanda sem fylgdi mönnun og öðru slíku tengdu Covid. Þá voru uppi áhyggjur af aðstæðum í því tímabundna húsnæði sem starfsemin var flutt í, í desember.
Á þeim tímapunkti sem ákvörðun var tekin um að loka úrræðinu og semja tímabundið við Klettabæ ehf. um vistun barnanna voru aðstæður þannig að ekki var hægt að tryggja öryggi og aðbúnað barnanna sem þar dvöldu. Sú ákvörðun að loka Hraunbergi og hefja strax undirbúning að stofnun stærra og öflugra úrræðis var því tekin með öryggi og velferð barna sem þar dvelja í fyrirrúmi.
Í Hraunbergi störfuðu 16 manns í um 11 stöðugildum auk tímavinnufólks og voru þau stöðugildi lögð niður. Mikil áhersla hefur verið lögð á að starfsfólk fái nauðsynlegan stuðning vegna breytinganna. Allra leiða er leitað til að tryggja starfsfólki Hraunbergs störf við hæfi á velferðarsviði. Á velferðarsviði er fjöldi starfa laus, til að mynda í búsetuúrræðum og á vaktavinnustöðum.
Við hvetjum ykkur til að lesa meðfylgjandi frétt um stofnun nýja úrræðisins sem verður tímabær umbylting í þjónustu fyrir börn og ungmenni sem þurfa á vistun utan heimilis að halda.“
Hér má í heild sinni nálgast tillöguna frá Regínu Ástvaldsdóttur, sviðsstjóra velferðarsviðs, sem samþykkt var á fundi velferðaráðs um undirbúning að stofnun nýs vistheimilis, en í janúar 2021 var skipaður starfshópur um endurskoðun á innra starfi í Hraunbergi og var skýrsla starfshópsins fylgiskjal með tillögunni í velferðarráði.
Í færslu sinni talar Sigurður um að samið hafi verið við „einkafyrirtæki út í bæ“ en í tillögunni segir að Barnavernd Reykjavíkur hafi í auknum mæli þurft að leita til Klettabæjar á síðustu árum til að uppfylla faglegar og lagalegar skyldur sínar, og sömuleiðis: „Barnavernd Reykjavíkur hefur góða reynslu af þjónustu Klettabæjar. Þá má um starf Klettabæjar vísa í nýlega úttekt Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu (nú velferðarmála) og barnaverndar frá því í desember 2021 en þar kemur meðal annars fram að „Öll ytri umgjörð fyrir dvöl barna og ungmenna í búseturúrræðum og hvíldardvöl Klettabæjar er góð. Viðmót er jákvætt þar sem börnin og ungmennin töluðu meðal annars um virðingu, hlýju og skilning frá starfsfólki Klettabæjar.“ Er þessi
vitnisburður í samræmi við reynslu starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur af vistunum barna hjá Klettabæ.“
Í tillögu sviðsstjóra segir að á undanförnum árum hafi orðið breyting á samsetningu þess hóps sem dvalið hefur í Hraunbergi. Áður voru algengustu ástæður fyrir vistun ungmenna þar fósturrof og heimilisaðstæður barns. Þá voru langflest ungmennin drengir eða um það bil tvöfalt fleiri en stúlkur. Viðsnúningur hafi orðið á þessu á undanförnum árum. Árið 2021 dvöldu 29 börn í Hraunbergi, þar af voru 16 stúlkur og langalgengasta ástæða vistunar var heimilisofbeldi.
„Mikil nýting plássa á Hraunbergi undanfarin ár og vaxandi þörf á vistun fyrir ungmenni gerir það að verkum að nauðsynlegt er að fjölga þeim vistunarplássum sem Barnavernd Reykjavíkur býr yfir,“ segir í tillögunni.
Áætlaður rekstrarkostnaður nýs úrræðis er rúmar 300 milljónir á ári, þar sem innifalinn er bæði launakostnaður og rekstur. Barnavernd Reykjavíkur ítrekar það mat að í stofnun nýs úrræðis felist lítill sem enginn viðbótarkostnaður, ef frá er talin væntanleg fjárfesting í húsnæði.
Um það starfsfólk sem var sagt upp störfum hjá Hraunbergi um mánaðamótin segir: „Mannauðsráðgjafar velferðarsviðs munu funda með hverjum og einum starfsmanni og leita lausna á þeirra málum. Leitað verði allra leiða til að finna þeim sem það kjósa önnur störf á velferðarsviði ellegar gengið frá starfslokum með uppsagnarfresti. Í dag er fjöldi starfa laus í búsetuúrræðum eða á vaktavinnustöðum á velferðarsviði Reykjavíkurborgar.“