Dramatísk uppákoma varð í netheimum í aðdraganda stjórnarkjörs hjá Samtökunum 78 um helgina. Meðal þeirra sem voru í framboði til stjórnar var ljósmyndarinn Geiri X, Ásgeir Ásgeirsson.
Ásgeir, sem er pansexúal, hefur lengi strítt við sjúkdóminn CRPS, sem er fjölþætt svæðisbundið verkjaheilkenni. Hann hefur stigið fram og greint frá hrottalegu kynferðisofbeldi sem hann hefur orðið fyrir, meðal annars af hendi konu.
Rétt fyrir stjórnarkjörið um helgina birtist ásökun á hendur Geira í Hinseginspjallinu á Facebook. Manneskjan sem þar á í hlut hefur krafist þess að fjölmiðlar fjalli ekki um færsluna og DV hefur ekki náð sambandi við hana. Ekki er hægt að verða við kröfum manneskjunnar um að fjalla ekki um málið þar sem Geiri hefur kært það til fagráðs Samtakanna 78 og ætlar að kæra ásökunina til lögreglu um leið og hann fær viðtalstíma hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Kærir hann fyrir rangar sakargiftir, meiðyrði og hatursorðræðu gegn manneskju í minnihlutahópi.
Manneskjan sakar Geira um óviðeigandi framkomu við myndatöku í ljósmyndastofu hans fyrir nokkrum árum. Hafi hann beðið hana um að halla sér fram svo það sæist í brjóst hennar. Manneskjan segist hafa eyðilagt myndirnar og ekki notað þær. Hafi atvikið valdið henni óþægindum og vanlíðan. Segist henni hafa brugðið við að sjá að þessi ljósmyndari væri í framboði til stjórnar Samtakanna 78. Segir hún að hana hrylli við að sækja stuðning til samtakanna í framtíðinni ef þessi maður verður þar í stjórn.
Geiri sakar konuna um lygar og eiginkona hans Rósa Bragadóttir gerir það sama. Staðhæfa þau að Geiri sé aldrei einn með ljósmyndunarviðfangi heldur sé Rósa alltaf með honum. Ennfremur segja þau að Geir, sem er pansexúal, fái ekkert út úr brjóstum kvenna auk þess sem hann tali aldrei á þann hátt sem hann er sakaður um þarna.
Þess má geta að Geiri náði ekki brautargengi í stjórnarkjörinu. Raunar leit út fyrir að hann yrði sjálkjörinn í stjórnina en þá var ákveðið að framlengja framboðsfrest og komu þá inn frambjóðandi sem skákaði Geiri. Segir Geiri að þarna hafi verið farið á skjön við reglur samtakanna og er hann mjög ósáttur við það.
Geiri segist niðurbrotinn eftir þessa ásökun. „Ef ég væri ekki svona alvarlega veikur af CRPS núna þá myndi ég hlæja að þessu,“ segir hann í samtali við DV.
Hann harðneitar ásökuninni en segist ekki hafa hugmynd um hvers vegna hún kom fram. Það sé þó varla tilviljun að það hafi gerst rétt fyrir stjórnarkjörið. „Eini möguleikinn er að hún hafi verið að koma í veg fyrir að ég kæmist í stjórn samtakanna með þessu. Ég veit ekki til að ég hafi gert neitt á hennar hlut og er alveg kjaftstopp yfir þessu.“
Rósa Bragadóttir, eiginkona Geira, hefur birt umræddar myndir í Hinseginspjallinu. Háls fyrirsætunnar er hulinn fatnaði og ekki sést í neina brjóstakoru. Vitanlega útilokar það ekki að öðruvísi myndir hafi verið teknar en þettar eru þær myndir sem hjónin hafa fundið í leit sinn í gagnasafni stofunnar. Rósa segir einnig að um það leyti sem myndirnar voru teknar, árið 2019, hafi Geiri verið hlaðinn verkefnum en hann hafi jafnframt verið fárveikur. Hafi þetta verið stuttu áður en hann lagðist inn á Reykjalund til endurhæfingar vegna hjartaáfalla.
Rósa segir um málið í Facebook: „Ég hef lengi velt því fyrir mér hvað fær fólk til að sparka í liggjandi manneskju. Að sama skapi hef ég velt því fyrir mér hvað fær manneskju til að bera aðra upplognum sökum. Hvorugt fæ ég enn skilið. Hvoru tveggja er þó eitthvað sem ég þurfti að horfa upp á gerast í dag. Maðurinn minn er sakaður um kynferðislega áreitni í myndatöku. Ég er sögð hafa verið viðstödd.“
„Ég er algjörlega niðurlægður og mannorðið er farið. Líkamleg og andleg heilsa í rúst,“ segir Geiri við DV.
Geiri rekur málið í myndbandi sem má sjá hér að neðan. Myndbandið var gert í gærkvöld áður en hann komst að því að hann hefði myndað manneskjuna sem ásakar hann á stofu sinni. Áður fullyrti hann að hún hefði aldrei stigið þangað inn fæti en það var áður en hann fann gögn um heimsókn hennar í dag.