Listinn var birtur á heimasíðu úkraínska varnarmálaráðuneytisins. Á honum eru upplýsingar um nöfn, fæðingardag og fæðingarstað, númer vegabréfa, „skráð“ heimilisföng og enn nákvæmari upplýsingar eru birtar um suma. Allt á fólkið það sameiginlegt að starfa í höfuðstöðvum FSB í Moskvu.
Samkvæmt því sem úkraínska leyniþjónustan segir þá eru nöfn leyniþjónustumanna á listanum sem „taka þátt í glæpsamlegu athæfi“ víða í Evrópu.
Á listanum eru einnig bílnúmer og athugasemdir við nöfn margra, til dæmis um fjárhagsleg málefni þeirra. The Telegraph segir að í athugasemdum við útsendara númer 210 á listanum komi Skypenafn hans fram en það inniheldur textann „jamesbond007“ og „DB9“ en það vísar að sögn til Aston Martin bíla sem hafa verið í mörgum James Bond myndum. Hjá öðrum hefur verið skrifað „foreldrar mínir störfuðu hjá KGB“.
Ekki er vitað hvar Úkraínumennirnir náðu í þessar upplýsingar en vitað er að þeir stofnuðu sérstakan tölvuher fljótlega eftir innrás Rússa og einnig hafa hin alþjóðlegu Anonymous, sem eru samtök tölvuþrjóta á heimsvísu, lýst yfir „stríði“ á hendur Rússlandi. Oleksej Danilov, formaður úkraínska varnar- og öryggisráðsins, sagði einnig í samtali við úkraínska sjónvarpsstöð að Úkraína fái aðstoð frá „ósáttum“ starfsmönnum FSB til að koma í veg fyrir morðtilraunir við Volodymyr Zelenskyy forseta. Washington Post skýrir frá þessu.
Business Insider segir að í síðustu viku hafi Rússar hafið leit að „vestrænum njósnurum“ innan FSB.