fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fréttir

Maður með dóm fyrir ofbeldi gegn stjúpbarni vann forsjármál gegn móður sonar þeirra

Erla Hlynsdóttir
Þriðjudaginn 29. mars 2022 10:14

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karlmaður vann forsjármál gegn fyrrverandi eiginkonu sinni nú í janúarmánuði þar sem Héraðsdómur Suðurlands komst að þeirri niðurstöðu að þau skyldu bæði fara með forsjá sonar þeirra en lögheimilið skyldi vera áfram hjá föður.

Héraðsdómur komst að sömu niðurstöðu í öðru forsjármáli þeirra í september 2018. Maðurinn hafði áður verið dæmdur fyrir líkamlegt ofbeldi gegn stjúpsyni sínum, eldri syni konunnar, þegar drengurinn var sex ára gamall.

Dómkvaddir matsmenn töldu báða foreldrana hæfa til að fara með forsjá barnsins en faðir þó hæfari en móður vegna betri hæfileika hans til samskipta við þá sem koma að umönnun drengsins, en maðurinn kann betri íslensku en konan, og hefur meiri stöðugleika í fjárhag, atvinnu og heimilisaðstæðum.

Skipti dómur um ofbeldi gegn bróður drengsins þar ekki máli.

Konan hefur nú lagt fram kvörtun til landlæknis vegna vinnubragða umræddra matsmanna. 

Rétt er að taka fram að matsmenn sem fengnir eru í forsjármálum eru sálfræðingar að mennt. 

Það er ekki fyrr en þriðja og síðasta matsgerðin er unnin sem staða móður er metin sterk en þá er talið heillavænlegast að drengurinn búi áfram hjá föður þar sem hann hafi búið í tvö ár, í takti við fyrri matsgerðir.

Tók eftir áverkum á andliti drengsins

Í báðum forsjármálunum fóru foreldrar drengsins fram á að fá fulla forsjá en til vara að foreldrar fari saman með forsjá, og kröfðust þá báðir þess engu að síður að lögheimili drengsins sé hjá sér.

Báðir foreldrar eru fæddir og uppaldir erlendis. Faðirinn hafði búið á Íslandi í nokkur ár  og kynntist konunni í gegn um samskiptasíðu. Hann fór út til hennar í heimsókn þar sem hann bað hana um að giftast sér og þau voru síðan í daglegum samskiptum á Skype. Þau giftu sig 2013, konan flutti til Íslands og þau eignuðust son saman ári seinna, en fyrir átti konan son sem kom með henni til Íslands.

Eftir lok vinnudags í desember 2015 tók konan eftir áverkum á andliti eldri sonar síns. Eiginmaður hennar sagði drenginn hafa dottið en drengurinn „lýsti því að ákærði setti hendurnar á höfuðið á honum og í andlitið á honum. Hann hefði líka rassskellt hann og hann hafi meitt sig í rassinum. Hann hafi líka meitt sig þegar ákærði hafi gert svona við andlitið á honum,” eins og segir í reifun málavaxta í héraðsdómi þar sem vísað er bæði í frumskýrslu og lögregluskýrslu. Maðurinn hafi þá viðurkennt fyrir konunni að hafa tekið á drengnum út af því að hann hefði verið að atast í yngri bróður sínum og ekki hætt þegar honum var sagt að hætta með þeim afleiðingum að sá yngri fór að gráta. Maðurinn neitaði þó að hafa snert andlit stjúpsonarins.

Úrskurður um nálgunarbann gagnvart barninu

Móðirin fór með drenginn á heilsugæslu morguninn eftir þar sem hann sagðist hafa orðið fyrir árás af hálfu stjúpföður.  Maðurinn var síðan úrskurðaður í nálgunarbann og vísað brott af heimili fjölskyldunnar í fjórar vikur, eða eins og segir í úrskurðinum:

„Kærða [manninum], verði á þessu tímabili bannað að veita [stjúpsyni] eftirför, bannað að koma eða vera við [sameiginlegt heimili þeirra], nálgast hann á almannafæri sem nemur 50 metra radíus frá staðsetningu hans hverju sinni eða setja sig í samband við hann með öðru móti, svo sem með símtölum eða tölvupósti.“

Konan fór þarna að huga að skilnaði við manninn. Hann kom þó aftur inn á heimilið, þegar konan tók við honum aftur í stuttan tíma, og í janúar 2016 leitaði hún til heilsugæslu með minniháttar áverka og sagði manninn hafa ráðist á sig. Konan hafði þá hlustað á upptöku af manninum eiga samtal við bróður sinn, þar sem hann játaði ofbeldi gegn syni hennar og sagðist vilja beita hann meira ofbeldi. Konan hafði þá skilið símann sinn eftir heima á upptöku. Þegar konan hafi gengið á manninn varðandi það sem hann sagði á upptökunni, hafi hann ráðist á hana. Maðurinn neitaði sök og sagðist telja að konan hefði sjálf veitt sér áverkana til að koma höggi á hann. Hann var ákærður bæði fyrir brot gegn konunni og syni hennar. 

Hann í rúmgóðu raðhúsi en hún í leiguíbúð

Í forsjármáli milli foreldranna var kallaður til dómkvaddur matsmaður sem birti matsgerð sína í september 2016, þá fyrstu af þremur sem hefur verið unnin hingað til. Nýir matsmenn koma að matinu í hvert skipti. Í þessari fyrstu matsgerð segir matsmaður frá því að hafa í eitt sinn heimsótt móður og föður hvort um sig þegar sameiginlegur sonur þeirra var á heimilinu.

Matsmaður segir að samskipti móður og yngri sonarins ekki hafa verið mikil á meðan hann var í heimsókn og hún hafi verið „afskiptalítil við drenginn“ auk þess sem snerting þeirra á milli hafi verið lítil og það hafi frekar virst að það væri móðirin en drengurinn sem settu þau mörk. Þá hafi engin samskipti verið á milli bræðranna á meðan matsmaður var í heimsókn. Eftir skilnað bjó faðir áfram í „rúmgóðu raðhúsi” sem hann átti og fjölskyldan öll hafði áður búið í, en móðir flutt í leiguíbúð. Í heimsókn til föður hafi drengurinn verið „allt öðruvísi en þegar ég hitti hann daginn áður” þegar matsmaður heimsótti móður, hann hafi verið mun glaðari og samskipti feðganna hafi einkennst af miklu ástríki, hlýju og gleði.

Leikskóli hafi staðfest að drengurinn var með kvef báða daga þannig að heilsufar hafi verið svipað. Því sé líklegast að ólík hegðun drengsins í heimsóknunum skýrist af ólíkum persónuleika foreldra og ólíkri tengslahæfni þeirra, samkvæmt matsmanni. Niðurstaða matsins var sú að báðir foreldrar væru hæfir en faðir þó hæfari til forsjár „vegna sterkari tengsla og meiri virkni föður gagnvart drengnum.” Sumsé, tengslin virðast metin eftir eina heimsókn á hvort heimili. 

Sögð tilbúin að sýna óheilindi

Tveir dómkvaddir matsmenn voru þá fengnir til að vinna yfirmatsgerð sem þeir skiluðu í febrúar 2017. Er þar að nokkru leyti vísað í fyrri matsgerð. Matsmenn fóru í tveggja daga heimsókn í bæjarfélagið sem foreldrar voru búsettir í, heimsóttu hvort foreldri um sig þegar barnið var á heimilinu og ræddu við fleiri aðila. Í matsgerð kemur fram að faðir er með hærri laun en móðir, að móðir á ekki fjölskyldu hér á landi en það eigi faðir eftir að bróðir hans og fjölskylda hans kom hingað sem hælisleitendur. 

Í niðurstöðu segir að matsmenn telja báða foreldra hæfa til að fara með forsjá drengsins en ákveðin atriði geri föður hæfari.

„Faðir býr við meiri stöðugleika hvað varðar atvinnu, fjárhag og heimilisaðstæður. Fram hjá því verður ekki litið að faðir hefur beitt eldri son móður líkamlegum refsingum en yfirmatsmenn telja ekki að faðir geri það að venju sinni að aga börn með þessum hætti. Móðir virðist ekki hafa sett sig upp á móti eða reynt að stöðva refsingar sem hún segir föður hafa beitt son hennar. Gögnin sem lögð eru fram um rangar sakargiftir móður á hendur föður eru trúverðug, ekki síst þar sem löggiltur skjalaþýðandi þýddi þau. Þau gefa tilefni til að móðir sé tilbúin að sýna óheilindi til að ná sínu fram og að ósennilegt sé að hún muni virða réttindi eða þarfir föður eða barns stangist það á við hennar eigin þarfir.“

Dæmdur í héraði en sýknaður að hluta í Landsrétti

Faðirinn var í desember 2017 dæmdur í Héraðsdómi Suðurlands fyrir líkamlegt ofbeldi gegn stjúpsyni sínum og eiginkonu. Honum var gefið að sök að hafa í desember 2015 tekið fast um andlit stjúpsonar, slegið hann í hnakka og rassskellt hann með þeim afleiðingum að hann hlaut rák við annað kinnbein og roða á rasskinnar. Auk þess að hafa í janúar 2016 veist að eiginkonu sinni, tekið fast um axlir hennar og haldið henni með þeim afleiðingum að hún hlaut mar á axlir með sjáanlegu handafari. 

Hann var dæmdur í 60 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir brot gegn stjúpsyni og fyrrverandi eiginkonu, og til þess að greiða þeim hvoru um sig 150 þúsund krónur í miskabætur.

Maðurinn áfrýjaði þessu til Landsréttar þar sem hann krafðist aðallega sýknu af broti gegn fyrrverandi eiginkonu. Í nóvember 2018 var maðurinn síðan sýknaður af ákæru um brot gegn konunni og bótakrafa til hennar felld niður. Hæfileg refsing þótti þá 30 daga fangelsi, skilorðsbundið til eins árs, fyrir brot gegn stjúpsyni.

Á meðal málsgagna voru hljóðupptökur sem maðurinn lét lögreglu fá en þar heyrist konan tala við foreldra sína í heimalandi þeirra tvo daga í röð í janúar 2016. Fyrir liggi þýðing löggiltra skjalaþýðenda á því sem þar kemur fram en alls þýddu þrír þýðendur ólíka hluta símtalanna.

Í dómsorði hjá Landsrétti segir að konan hafi rætt  um yfirvofandi skilnað þeirra hjóna, og að meðal annars hefði hún sagt: „Bara eitt orð frá mér, bara tilkynna marblett til lögreglunnar. Og svo búið! Ég ætla að gera þetta. Ég kæri hann. Helvítis skepna!“ Daginn eftir hafi hún sagt foreldrum sínum að hún væri með frábæran lögmann og að hún ætli að taka húsið upp í miskabætur.

Lengri útgáfa af upptökunni

Þá segir í dómi Landsréttar: „Brotaþoli hefur ekki gefið trúverðugar skýringar á framangreindum orðaskiptum sínum við foreldra sína. Verður ekki annað ráðið af upptökunum en að brotaþoli hafi lagt á ráðin um að kæra ákærða fyrir líkamsárás og fella á hann sök. Með hliðsjón af því, óstöðugum framburði hennar og óljósum lýsingum hennar á árásinni þykir framburður hennar ótrúverðugur. Er þá einnig litið til þess að hvorki er hægt að slá því föstu að áverkar brotaþola séu eftir fast handtak um axlir hennar né að þeir hafi myndast skömmu áður en brotaþoli leitaði til lögreglu og ljósmyndir af áverkunum voru teknar. Framburður ákærða þykir á hinn bóginn trúverðugur,“ segir í dómi Landsréttar.

Konan framvísaði hins vegar lengri útgáfu af upptöku af símtali sínu við móður sína, lengri en þá sem maðurinn framvísaði. Hún segir samtalið tekið úr samhengi í klipptu útgáfunni en í þeirri sem er í fullri lengd heyrist móðir konunnar viðra miklar áhyggjur af því að dóttir sín sé í ofbeldissambandi og að þær verði saman að finna leið fyrir hana til að losna. Þessi lengri útgáfa var hins vegar ekki tekin gild. 

Maðurinn vann þetta fyrra forsjármál þeirra og hefur drengurinn haft lögheimili hjá föður síðan í árslok 2019, og móðirin haft umgengni við barnið aðra hverja helgi. 

Eftir að Landsréttur sýknaði manninn af því að hafa ráðist á konuna kærði maðurinn hana fyrir rangar sakargiftir í mars 2021 en það var fellt niður af lögreglustjóra.  Maðurinn kærði niðurfellinguna en DV hefur ekki upplýsingar um niðurstöðuna.

Nýjasta matsgerðin og niðurstaða seinna forsjármáls

Nýjasta matsgerðin og sú þriðja, gerð af fjórða matsmanninum vegna seinna forsjármáls, var lögð fram í desember 2021 vegna forsjármáls þeirra fyrir Héraðsdómi Suðurlands.

Þar segir að aðstæður föður séu þær sömu og í fyrri matsgerðum. Þeir feðgar búi tveir saman en stutt sé í föðurbróður drengsins og hans fjölskyldu. Þetta sé það umhverfi sem drengurinn hafi alist upp við frá fæðingu. Í ljósi þess að forsjárhæfni föður sé óbreytt frá fyrri matsgerðum og í ljósi þess að hann hafi verið aðal umönnunaraðili drengsins „þá hlýtur staða hans að hafa styrkst frekar en hitt.“

Aðstæður móður hafa hins vegar breyst frá fyrri matsgerðum. Hún sé nú gift og hafi skapað sér meiri stöðugleika, reki fallegt heimili með íslenskum eiginmanni sínum, vinni fulla vinnu og hafi verið að mennta sig og styrkja á margan hátt. Á heimilinu búi einnig eldri sonur konunnar, sumsé hálfbróðir drengsins, auk sonar eiginmanns hennar og hundur.

„Án efa eru aðstæður hennar mun betri nú en þegar þær voru“ þegar fyrri forsjármatsgerðir voru unnar. Forsjárhæfni hennar hafi styrkst. Áður hafi báðir foreldrar verið metnir hæfir en hún talin með minni möguleika varðandi vinnu, fjárhag og heimilisaðstæður. „Í dag hafa allir þessir þættir breyst og staða hennar mjög sterk,“ segir í matsgerðinni.

Konan og núverandi maður hennar segja bæði að faðir sé mjög ósveigjanlegur varðandi umgengni móður þegar hún styttist eða fellur niður vegna veðurs og samgangna á milli bæjarfélaganna.

Þá segir í niðurstöðum þessarar nýjustu matsgerðar: „Að framansögðu hefur staða beggja foreldra styrkst frá fyrri matsgerðum. Ef búseta væri önnur en hún er yrði ávallt mælt með meiri samveru við móður en er í dag. Hins vegar er erfitt að koma auga á betra fyrirkomulag en er fyrir hendi sökum aðstæðna.“ 

Seinna forsjármálinu lauk því, sem fyrr segir, nú í janúarmánuði þar sem niðurstaðan var að foreldrar skyldu áfram vera með sameiginlega forsjá en lögheimilið áfram hjá föður. Í gildi er úrskurður frá sýslumanni um að umgengni við móður skuli fara fram aðra hverja helgi.

Sögðu konuna gera sig að fórnarlambi

Konan hefur nú sent inn kvörtun til landlæknis vegna matsmannanna, sálfræðinganna tveggja, sem unnu yfirmatsgerð í fyrra forsjármálinu. Efni kvörtunar er: „Fyrir afglöp í starfi með því að hafa gefið frá sér sérfræðimat sem var hlutdrægt og ófaglegt, þar sem ofbeldi var hunsað og þolandi sökuð um afbrot að ósekju.”

Í rökstuðningnum sem hún leggur fram segir meðal annars: „Yfirmatsmenn leggja mat á ásakanir um ofbeldi og leggja sig fram við að afsanna allar ásakanir mínar um ofbeldi föður gegn börnum á heimilinu. Rétt er að taka fram að faðir fékk síðar refsidóm fyrir ofbeldið gegn bæði móður og barni í héraði. Dómur fyrir ofbeldi gegn barninu var staðfestur í Landsrétti, en faðir var sýknaður af ofbeldinu gegn mér í Landsrétti.”

Þá segir hún í kvörtuninni að yfirmatsmenn taki þýddar upptökur föður til greina í matsgerð en hafni hennar upptökum með þeim rökum að þær séu ekki þýddar af löggiltum skjalaþýðanda.  „Við túlkun yfirmatsmanna á upptöku frá föður komast matsmenn að niðurstöðu um að ég hafi lagt á ráðin um að hafa af föður fé og son þeirra. Verður þetta að teljast mjög hæpin niðurstaða út frá samtali sem þolandi getur vel hafa átt við foreldra sína og eðlilega sýnir reiði gagnvart geranda sínum í samtalinu.” 

Hún segir ennfremur að ef öll upptakan sé skoðuð sé augljóst að orð hennar hafi verið tekin úr samhengi. Upptakan er síðan fylgiskjal með kvörtuninni. 

Þá bendir hún á að yfirmatsmenn hafi tekið viðtal við leikskólastjóra og hafa eftir henni í mati sínu harðorðar staðhæfingar sem leikskólastjórinn gerir athugasemdir við og kannast ekki við að hafa sagt, og eru athugasemdirnar í fylgiskjali með kvörtuninni en þær eru í sjö liðum.

Konan gagnrýnir einnig í kvörtuninni að yfirmatsmenn geri lítið úr frásögn eldri sonar síns sem hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu föður þegar hann segir frá. „Láta yfirmatsmenn í ljós að drengurinn sé með flöktandi augnaráð, sem eigi að vísa til þess að barnið sé ekki að segja satt,” segir í rökstuðningnum en í fylgiskjali er læknisvottorð vegna augnsjúkdóms drengsins sem veldur flöktandi augnaráði. 

Afþakkaði fjárhagsaðstoð

„Yfirmatsmenn komast að þeirri niðurstöðu að ég sé fégráðug og búi til frásagnir um ofbeldi til að græða pening. Líta þær alfarið framhjá vitnisburði Barnaverndar  [bæjarfélagsins] um að mér hafi staðið til boða fjárhagsaðstoð sem ég hafi hafnað. Segja barnaverndarfulltrúar föður segja ósatt, en þær upplýsingar virðast heldur ekki henta niðurstöðu yfirmatsmanna. Geri ég athugasemd við að yfirmatsmenn fullyrða: “eins og fram hefur komið að ofanverðu hefur hún af ásetningi gert sig að fórnarlambi og komið sök á barnsföður sinn í sjónarmiði að hafa af því fjárhagslegan ávinning.” Tel ég yfirmatsmenn setja sig í dómarasæti með þessari setningu, en takmarkaðar sannanir hafa þær fyrir mínum meintu röngum sakargiftum. Barnsfaðir minn kærði mig fyrir rangar sakargiftir en það mál var látið niður falla. Kæra mín um ofbeldi var hins vegar tekin fyrir af dómstólum, hann sakfelldur í héraði en sýknaður í Landsrétti. Verður að teljast óeðlilegt hversu hlutdrægir yfirmatsmenn eru með föður í matsgerðinni.”

Hún lýkur rökstuðningnum síðan með þessum orðum: „Einnig vil ég gera athugasemd við orð sem matsmenn létu falla í viðtali við mig. Þar sögðu þær að ofbeldi föður gegn eldra barni mínu hefði ekkert gildi í forsjármál um yngra barnið.”

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stríðið milli Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna heldur áfram

Stríðið milli Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna heldur áfram
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmundur Davíð tjáir sig harkalega um VMA-málið – „Allt einhver fullkomin þvæla frá einstaklingi sem var ekki á staðnum“

Sigmundur Davíð tjáir sig harkalega um VMA-málið – „Allt einhver fullkomin þvæla frá einstaklingi sem var ekki á staðnum“