Fullkomið að byrja morgnana á góðri orku sem dugar vel út í daginn. Chia grautur er með því hollara sem hægt er að fá sér og svo er auðvita hægt að gera chia grautinn enn betri með lúxusblöndu ofan á. Hér er á ferðinni lúxus chia grautur sem kemur beint úr smiðju Berglindar Hreiðars matar- og lífsstílsbloggara hjá Gotterí og gersemar með meiru sem steinliggur.
Eins og Berglind segir sjálf er kókos- og möndlusmjörið er algjör hittari út á grautinn, berin síðan mjúk og sæt, kókosflögur og hnetur með smá kröns setja punktinn yfir i-ið, þetta allt saman er hreinlega fullkomin negla.
Það er lítið mál að útbúa chiagrautinn með fyrirvara og setja síðan „topping“ á hann þegar þú ert að fara að borða eða til að grípa með í nesti. Það má einnig skipta uppskriftinni niður í krukkur og geyma grautinn þannig þangað til þú ert tilbúin að borða hann. Ef þú ert með gott lok á boxin/krukkurnar sem þú notar má geyma tilbúinn chiagraut í 3-5 daga í ísskápnum svo það er fullkomið að hræra í nokkrar krukkur í einu.
Lúxus Chia grautur
Fyrir 4 skálar
Chia grautur
150 g Chia fræ
800 ml möndlumjólk
350 g kókosjógúrt
Hrærið öllu saman í skál og leyfið að standa í um 10 mínútur.
Hrærið þá aftur upp í blöndunni, setjið lok á skálina og geymið í kæli í að minnsta kosti 3 klukkustundir eða yfir nótt. Skiptið síðan niður í skálar og toppið með neðangreindum hugmyndum.
„Toppurinn“ á Chia grautinn
Rapunzel kókos- og möndlusmjör með döðlum eftir smekk
Rapunzel döðlusýróp eftir smekk
Brómber eftir smekk
Bláber eftir smekk
Banani, skorinn í sneiðar
Ristaðar kókosflögur
Saxaðir pistasíukjarnar
Smá saxað dökkt súkkulaði