fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fréttir

Varað við manni á sægrænum sendiferðabíl sem keyrir um miðbæinn í leit að konum – „Hann var mjög óviðeigandi við mig“

Máni Snær Þorláksson
Þriðjudaginn 15. mars 2022 12:14

Skjáskot/Twitter

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður í sægrænum sendferðabíl af gerðinni Volkswagen Caravelle Syncro hefur vakið óhug fólks í miðbæ Reykjavíkur að undanförnu. Fjölmörg dæmi er um að maðurinn reyni að lokka fólk, sérstaklega konur, í bílinn sinn að djammi loknu með loforði um far heim til þeirra. Þegar á ferðina er komið hefur maðurinn þó reynst vera óviðeigandi og ógnandi. Hann hefur ekki farið réttar leiðir og „gleymir að beygja.“

Maðurinn virðist stunda þetta, en sést hefur til hans á bílnum að keyra í hringi um miðbæinn í leit að fórnarlömbum. Bæði eru til dæmi um að hann sé einn á ferðinni en einnig í slagtogi við annan mann. Varað hefur við manninum og bílnum á samfélagsmiðlum.

„Hann keyrir bara eitthvað“

Síðastliðinn fimmtudag voru vinir, tvær konur og einn maður, búin að vera að skemmta sér í miðbæ Reykjavíkur. Þegar djamminu var lokið og förinni var heitið heim ákváðu vinirnir að reyna að finna leigubíl. Þegar engan leigubíl var að fá kom maðurinn í sægrænum sendiferðabílnum og bauð þeim far. Vinirnir þáðu farið en eftir stutta stund grunaði þau að eitthvað undarlegt væri á seyði.

„Þau voru að reyna að ná sér í leigubíl og það er erfitt að fá leigubíla þannig þegar þessi maður stoppar og bíður þeim far þá þiggja þau það,“ segir vinkona fólksins sem þáði farið með bílnum í samtali við DV. Hún segir bílstjórann hafa verið „passive aggresive“ á meðan ferðinni stóð, hann hafi skipst á að vera dónalegur við þau og ljúfur.

Þegar þau voru búin að vera í bílnum í smá stund tóku þau eftir því að maðurinn var ekki að keyra með þau þangað sem þau báðu hann um að fara. „Hann keyrir bara eitthvað, hann er ekki að fara þangað sem þau biðja hann um að fara. Hann kíkir ekki á leiðbeiningar og slíkt.“

Í kjölfarið ákveður maðurinn í vinahópnum að segja bílstjóranum að stöðva bílinn og hleypa þeim út. „Á endanum þá stoppar hann og hleypir þeim út. Þau hlaupa inn hjá einhverju fólki og fá að fara inn þar. Bílstjórinn bíður fyrir utan og virðist ekki ætla að koma sér í burtu, þá ákveða vinirnir að hringja í lögregluna sem kemur og handtekur bílstjórann.

Vinkona fólksins segir í samtali við DV að lögreglan hafi tjáð vinum sínum að bílstjórinn hafi verið eftirlýstur fyrir að lokka konur upp í bílinn sinn.

Gleymdi beygjunum og keyrði löturhægt

Ljóst er að alls ekki er um einstakt atvik að ræða. DV ræddi við tvær konur sem voru að skemmta sér í miðbæ Reykjavíkur á laugardaginn í þar síðustu viku. Þegar skemmtistaðirnir voru að loka fóru þær saman í röð að bíða eftir leigubíl.

Þegar þær gengu að röðinni sáu þær sægræna bílinn sem um ræðir að keyra í marga hringi um svæðið. Þær segja bílinn hafa stoppað hjá sér. „Við tvær erum í háum hælum, drukknar og vildum bara koma heim,“ segja þær en áður en þær vita af eru þær komnar inn í þennan sægrænum bíl.

Þær segja þá að maðurinn hafi reynt að fá þær til að reykja fíkniefni sem hann hafði rúllað upp í sígarettu. Þær neituðu og í kjölfarið fór maðurinn að tala um hvernig þau væru öll tengd. „Hann talaði mjög lélega ensku, ég skildi varla hvað hann var að reyna að segja.“

Það vakti athygli þeirra að maðurinn var að keyra löturhægt þrátt fyrir að vera á hraðbraut, þær segja hann hafa verið að keyra á 10-20 kílómetra hraða á klukkustund á götu þar sem hámarkshraðinn var 80. „Við spurðum hann oft hvort hann gæti ekið hraðar og að við værum að drífa okkur heim.“

Þær segja manninn hafa „oft gleymt beygjunum“ og ekki farið eftir leiðbeiningunum sem þær gáfu honum til að komast heim til sín. Að lokum skutlar hann annarri vinkonunni hjá Hamraborg í Kópavoginum en hin vinkonan þurfti að komast í nágrenni við Garðatorg í Garðabænum.

Sú sem var að fara í Garðabæinn var því ein eftir með honum í bílnum frá Hamraborg að Garðatorgi. Hún segir manninn hafa verið miklu óþægilegri eftir að þau voru bara ein. „Hann strýkur hárið mitt og er enn að reyna láta mig reykja eitthvað með honum,“ segir hún.

Á endanum fékk hún nóg og sagðist vilja fara út og ganga heim til sín. „Hann stoppaði hjá Garðatorgi og var byrjuð að labba þá sé ég hann vera bara stopp og stara á mig,“ segir hún. „Þegar ég leit aftur var hann horfinn úr bílnum og var að elta mig, ég hljóp í einhverja „random“ blokk og hringdi í vinkonu mína. Nokkrum mínútum eftir það var hann og bílinn horfinn.“

„Hann var mjög óviðeigandi við mig“

Dæmin um fólk sem hefur lent í manninum á sægræna bílnum eru enn fleiri. Önnur kona sem fór ein í bílinn með honum lýsir óviðeigandi og ógnandi hegðun hans. „Ég labbaði út af Dubliner og hugsaði að núna væri kominn tími á að ég færi heim, ég var ein. Allt í einu var ég komin í bíl með ókunnugum, ég man ekki hvernig ég komst inn í hann, það er mjög ólíkt mér að gera eitthvað svona,“ segir konan.

„Ég sat í framsætinu hjá þessum manni sem ég þekkti ekki neitt. Hann var mjög óviðeigandi við mig, hann spurði mig hvort ég vildi vera konan sín aftur og aftur, ég sagði honum að ég ætti kærasta, hann hélt áfram. Ég byrjaði að vera mjög hrædd og sagði honum að hætta þessu og skutla mér heim.“

Maðurinn skutlaði konunni að lokum heim til hennar. Konan býr ofarlega í fjölbýlishúsi en hún prísar sig sæla að móðir hennar hafi verið vakandi þegar hún kom heim. Hún hringdi bjöllunni og móðir hennar opnaði fyrir henni en þegar hún gekk upp stigann sá hún að maðurinn var að elta sig.

„Ég sagði við hann mörgum sinnum að koma sér út og láta mig í friði, mamma heyrði í mér öskra á einhvern á ganginum svo hún kom fram og var að athuga við hvern ég var að rífast, hún sagði svo hvað er í gangi? Þá sá hún að það er maður að elta mig. Hann fór þá út og mamma mín fór út a svalir og sá hann ganga tautandi við sjálfan sig út í bílinn. Hann fór inn í bílinn aftur í og þá var annar sem keyrði.“

DV hefur ítrekað reynt að hafa samband við lögregluna vegna málsins en án árangurs.

Uppfært kl. 14:10:

DV hefur borist ábendingar um að bíllinn sem um ræðir sé í raun meira sægrænn á litinn frekar en blár. Þá hafa einnig borist fleiri myndir af bílnum, á þeim má sjá hvernig bíllinn lítur út að framan. Myndirnar má sjá hér fyrir neðan.

Mynd/Aðsend
Mynd/Aðsend
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“