„Á þessum degi fyrir nákvæmlega 14 árum hitti ég systkyni mín 6 og pabba minn í fyrsta skipti. Þetta átti sér stað í jarðarför ömmu minnar sem ég hitti því miður aldrei.“
Svona hefst færsla sem Aron Leví Beck, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, skrifar en hann birti færsluna á Facebook-síðu sinni í dag.
Fyrir 14 árum var Aron 18 ára gamall lærður málari og starfaði sem slíkur. Stuttu fyrir þennan dag sem Aron talar um hafði það komið í ljós að uppeldisfaðir hans var í raun ekki líffræðilegur faðir hans. „Ekki nóg með það heldur voru litlu bræður mínir það ekki heldur né amma og afi. Ég hafði enga hugmynd, þetta kom eins og þruma úr heiðskíru lofti,“ segir Aron í færslunni.
„Fyrir mér var þetta óraunverulegt, ég varð í raun ótrúlega flatur gagnvart þessu, of furðulegar upplýsingar til að vinna úr. Maðurinn sem ég leit mest upp til, sterkastur, alltaf með svörin, gat allt og kenndi mér svo ótrúlega margt sem ég bý enn að í dag. Tengslin sem foreldrar mynda við börnin sín slitna aldrei hvort sem þau eru blóðtengd þeim eða ekki.“
Aron spurði móður sína þá hver líffræðilegur faðir sinn væri en móðir hans var með einn mann í huga. „Þá var dreginn fram maður sem leit nákvæmlega eins út og ég og börnin hans sömuleiðis. Rauðbrúna hárið, freknurnar, tennurnar, nefið, geðslagið og skapgerðin, þarna var þetta allt! Ég var kominn heim en ég hafði líka verið svikinn af þeim sem ég treysti mest,“ segir hann.
Eftir þetta talaði Aron við föður sinn í fyrsta skipti eftir þetta í gegnum síma en hann hafði aldrei á ævi sinni hitt hann. Faðir hans sagði honum að amma Arons hafi dáið nokkrum dögum áður og bauð hann Aron velkominn í jarðarförina. „Þarna hugsaði ég að illu væri best af lokið, ég myndi mæta og hitta þetta fólk,“ segir Aron.
„Þetta var líka mitt eina tækifæri til að skapa einhverskonar minningu með ömmu minni eins súrrealískt og það kann að hljóma og það væri möguleiki á að ég gæti séð eftir því seinna að hafa ekki farið.“
Aron segir að jarðarför ömmu sinnar hafi verið falleg og að hann hafi speglað sig í æviárgripum hennar. „Hugsaði hvernig hún hefði verið við mig þegar ég var lítill og málaði myndir í huganum,“ segir hann og bætir við að hann hafi fengið góðar móttökur frá þessari nýuppgötvuðu fjölskyldu sinni.
„Mér var tekið opnum örmum af þessari fjölskyldu, faðir minn á 7 börn með 7 konum svo fjölskyldumynstryð er nokkuð fljótandi, ég var velkominn frá fyrstu stundu. Það tók mig ótrúlega stuttan tíma að tengjast þeim og áreynslulaust upplifði ég mig sem hluti af hópnum.“
Að lokum segir Aron hvers vegna hann opnar sig um þessa sögu sína. „Mig langaði að segja frá þessu því þessi mál eru lítið rædd í okkar samfelagi þó mig gruni að þau séu algengari en við höldum,“ segir hann.
„Ég er ekki reiður við neinn. Mamma mín var ný orðin 19 ára þegar hún átti mig og ég treysti því að hún hafi alla tíð reynt að gera það sem væri mér fyrir bestu. Það er ekkert léttvæglegt við þetta og þetta mál snertir svo miklu fleiri en mig. Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt og þessi reynsla kemur til með að fylgja mér um ókomna tíð.“
Aron botnar þá færsluna með skilaboðum sem flestir ættu að geta tekið til sín. „Þegar lífið kippir undan þér fótunum er fátt annað að gera en að standa aftur upp og halda áfram. Vinna úr málum eftir bestu getu, þiggja þá hjálp sem býðst og gera það sem þú getur og hefur ástríðu fyrir og njóta þess.“