Fréttablaðið segir að Sólveigu hafi verið boðið sæti á lista Ólafar Helgu og hefur eftir Sólveigu að henni hafi ekki verið boðið efsta sætið. Fréttablaðið segir að heimildum blaðsins beri ekki saman um hvort Sólveigu hafi verið boðið að leiða listann. „Mér var ekki boðið efsta sætið á lista uppstillingarnefndar,“ hefur blaðið eftir Sólveigu Önnu.
Auk lista Sólveigar Önnu og Ólafar er listi Guðmundar Baldurssonar boðinn fram til stjórnar Eflingar. Mikill hiti er í kosningabaráttunni og í gær var skýrt frá því að kostnaður Eflingar vegna starfsmannamála hafi verið 130 milljónir á þeim þremur árum sem Sólveig Anna var formaður en hún sagði af sér í nóvember.
Guðmundur sagði á Fréttavaktinni á Hringbraut í gær að 40 starfsmenn á skrifstofu Eflingar hefðu sagt upp eða verið sagt upp á skömmum tíma. Þetta hlyti að vera heimsmet í starfsmannaveltu hjá svo litlu félagi.
Ólöf Helga staðfesti á Hringbraut að hún og Sólveig Anna talist ekki lengur við. Í fyrrahaust studdi Sólveig Anna málshöfðun Ólafar gegn Icelandair af miklum krafti í hinu svokallaða hlaðkonumáli. En ljóst má vera að samband þeirra hefur breyst mikið síðan þá.