fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
Fréttir

Sólveig Anna segir að hálaunafólk hafi breytt verkalýðshreyfingunni í sjálftökumaskínu – Nefnir Þráinn og Kristjönu sérstaklega

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 3. febrúar 2022 06:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og DV skýrði frá í morgun þá var Sólveigu Önnu Jónsdóttur, fyrrverandi formanni Eflingar, boðið sæti á lista Ólafar Helgu Adolfsdóttur til stjórnar og formennsku í Eflingu. Sólveig Anna afþakkaði þetta boð og býður sinn eigin lista fram. Einnig kom fram starfsmannakostnaður á skrifstofu Eflingar hafi verið 130 milljónir króna á þeim þremur árum sem Sólveig Anna var formaður Eflingar en hún sagði af sér í nóvember. Sólveig svaraði þessu í færslu á Facebook í gærkvöldi og fer þar yfir víðan völl.

Hún segir í grein sinni að hálaunafólk hafi í raun breytt verkalýðshreyfingunni í sjálftökumaskínu og að kostnaður við starfsmannahald á skrifstofu Eflingar á formannstíð hennar hafi verið miklu hærri en þær 130 milljónir  sem voru nefndar í gær. Hún segir þá tölu vera byggða á upplýsingum sem Guðmundur Baldursson, stjórnarmaður og formannsframbjóðandi í Eflinu, hafi óskað eftir frá starfandi formanni Eflingar, varaformanni og skrifstofu félagsins gagngert til að leka í fjölmiðla.

„Er þar gert mikið úr kostnaði við veikindi, uppsagnarfresti og starfslokasamninga á formannstíð minni. Ég get upplýst ykkur sem þetta lesið að kostnaður við starfsmannahald á skrifstofum Eflingar er miklu, miklu meiri en þarna kemur fram,“ segir hún.

Hún segir að eitt af því sem hafi vakið athygli hennar þegar hún hóf störf á skrifstofum Eflingar árið 2018 hafi verið mikil og kostnaðarsöm fríðindi starfsfólks skrifstofunnar. Þetta hafi verið á kostnað félagsfólks. „Mér var tilkynnt oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að starfsfólkið ætti að „njóta alls þess besta“ úr kjarasamningum bæði á almenna og opinbera vinnumarkaðinum. Þannig ætti starfsfólkið bæði að vera á samkeppnishæfum markaðslaunum miðað við einkageirann, þ.e.a.s hærri launum en tíðkast hjá ríki og sveitarfélögum, og á sama tíma njóta einnig allra fríðinda úr samningum við hið opinbera, nánar tiltekið ríflegs veikindaréttar, uppsagnarverndar og uppsagnarfresta. Og eins og ég segi var þess gætt mjög rækilega að ég vissi að svona hefði þetta verið og svona ætti þetta einfaldlega að vera,“ segir hún og bætir síðan við: „Þá eru auðvitað ótalin ýmis önnur fríðindi starfsfsólks Eflingar svo sem ókeypis veislumatur í hádeginu, dýrar árshátíðarferðir til útlanda, einkaskrifstofur fyrir hvern einasta starfsmann með fyrsta flokks tölvu- og húsbúnaði, tíðar hópeflis- og átsamkomur á vinnutíma, og svo framvegis.“

Markvisst sóst eftir að nýta veikinda- og starfslokarétt

„Eftir að ég kom til starfa hjá Eflingu hafa fjölmargir starfsmenn félagsins, sem af ýmsum ástæðum hefur verið í nöp við mig og þær breytingar sem ég hef barist fyrir, þær breytingar sem ég hafði umboð félagsfólks til að innleiða, sóst markvisst eftir að nýta sér til hins ítrasta öll þau veglegu réttindi sem þeir njóta tengt veikindum og starfslokum. Ég viðurkenni að þar var oft hugmyndaflug mitt sem tveggja vinnu láglaunakona á íslenskum vinnumarkaði ofurliði borið. Afstaða mín var þó sú sama og ég hef alltaf haft gagnvart starfsfólki á skrifstofu Eflingar, þ.e.a.s. að virða að öllu leyti gildandi réttindi þeirra og gera ekki athugasemdir við að þau túlkuðu ráðningarkjör sér í hag, og að leita sátta,“ segir hún síðan og bætir við að þetta hafi því miður aldrei skilað neinni sátt, heldur aðeins sífelldri og aukinni heift í hennar garð og meiri ásælni í sjóði félagsfólks.

„Mér er til dæmis minnisstætt þegar Þráinn Hallgrímsson fyrrum skrifstofustjóri hóf linnulausar árásir og ásakanir á mig, eftir að hafa undirritað starfslokasamning og skilið við félagið í góðu. Ástæðan var sú að ég féllst ekki á að veita honum enn meira fé úr sjóðum félagsins,“ segir hún síðan og nefnir síðan annan starfsmann sem reiddist henni fyrir að hafa ekki veitt honum stöðuhækkun. Við þá höfnun hafi hann skyndilega veikst og stóðu veikindin, samkvæmt læknisvottorði, yfir í eitt ár sem var nákvæmlega jafn langur tími og umsaminn veikindaréttur viðkomandi. Þessum starfsmanni hafi síðar fundist það góð hugmynd að hóta að koma heim til hennar og vinna henni mein.  Hún nefnir viðkomandi ekki með nafni en væntanlega á hún við Tryggva Marteinsson miðað við það sem fram kom á Miðjunni þann 12. nóvember síðastliðinn.

Sólveig víkur síðan að máli Kristjönu Valgeirsdóttur, fjármálastjóra Eflingar, sem hún segir að hafi veikst skyndilega þegar Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, fór að spyrja hana út í fjármál félagsins, þetta hafi Kristjönu ekki líkað. „Seinna var Kristjana tekin til rannsóknar hjá Skattrannsóknarstjóra ríkisins, en þegar að þeim tímapunkti var komið hafði Kristjana nýtt til fulls bæði veikindarétt sinn (eitt ár samkvæmt ráðningarkjörum) og uppsagnarfrest,“ segir hún.

Því næst segir hún að bókari félagsins hafi gert það sama og Kristjana og síðan mætt á aðalfund Eflingar, farið í pontu og ausið „snarbiluðum og viðbjóðslegum svívirðingum“ í um 10 mínútur áður en hún æddi út.

„Reikningurinn fyrir það að hálaunafólki hafi tekist að breyta verkalýðshreyfingunni í sjálftökumaskínu fyrir sjálft sig er svo sannarlega hár. Og reikningurinn fyrir það að losa sig undan oki þess sama hálaunafólks getur því miður líka orðið hár. Við því er ef til vill fátt að gera, enda bæði “réttindavitund” og viljinn til að bera harm sinn á torg afar ríkur hjá hálaunafólkinu,“ segir hún síðan og hvetur félagsmenn Eflingar til að gera félagið að öflugu baráttutæki fyrir verka- og láglaunafólk.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigurjón skaut hart á Sjálfstæðisflokkinn og Morgunblaðið – „Þeir sem töpuðu kosningunum eru óánægðir“

Sigurjón skaut hart á Sjálfstæðisflokkinn og Morgunblaðið – „Þeir sem töpuðu kosningunum eru óánægðir“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir ríkisskattstjóra mismuna styrkþegum – „Bindum vonir við að fjármálaráðherra bregðist hratt og örugglega við“

Segir ríkisskattstjóra mismuna styrkþegum – „Bindum vonir við að fjármálaráðherra bregðist hratt og örugglega við“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Diljá íhugar formannsframboð: „Ég hef þung­ar áhyggj­ur af stöðu flokks­ins“

Diljá íhugar formannsframboð: „Ég hef þung­ar áhyggj­ur af stöðu flokks­ins“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir Rússa vera að endurvopnast í því skyni að ráðast á NATÓ-ríki

Segir Rússa vera að endurvopnast í því skyni að ráðast á NATÓ-ríki