Hafdís Björg Kristjánsdóttir, einkaþjálfari og margfaldur Íslandsmeistari í fitness, las á dögunum færslu sem móðir nokkur birti á Instagram í kjölfar þess að 12 ára sonur hennar svipti sig lífi. Færslan sem um ræðir hefur vakið gífurlega mikla athygli en í henni talar móðirin um eineltið sem leiddi til þess að sonur hennar ákvað að taka eigið líf.
„Hann var 12… 12 ára gamall. Hvernig getur 12 ára gamall strákur sem vissi að hann var elskaður af öllum hugsað að lífið væri of erfitt til að lífa því,“ skrifar móðirin í færslunni sem um ræðir. „Þetta… þetta er afleiðing eineltis, strákurinn minn var í baráttu sem ekki einu sinni ég gat bjargað honum úr. Þetta er raunverulegt, þetta er hljóðlátt og það er ekkert, nákvæmlega ekkert sem þú sem foreldri getur gert til að taka þennan djúpa sársauka í burtu.“
Móðirin segir þá að hjartað sitt sé brotið og að hún viti ekki hvernig hún eigi að laga það, eða hvort það muni nokkurn tímann gerast. „En ég mun eyða hverri einustu mínútu sem ég á í að kenna kærleika í minningu uppáhalds stráksins míns. Hans hlutverk hérna var að kenna kærleika, sýna ást og hann gerði það svo sannarlega.“
View this post on Instagram
Hafdís segir að hún hafi ekki getað setið á sér lengur eftir að hún las þessa færslu, hún er komin með nóg á hatrinu sem fær að viðgangast í samfélaginu. „Þetta verður aldrei auðveld umræða en þetta er virkilega mikilvæg umræða sem ég held að mjög margir þurfa að heyra!“ segir hún í færslu sem hún birti á Instagram-síðu sinni í gær. DV fékk góðfúslegt leyfi frá Hafdísi til að fjalla um færsluna.
„Einelti sama í hvaða formi það er á ALDREI rétt á sér.“
Þá bendir Hafdís á að oft þegar fólk les sögur um slæmar afleiðingar eineltis hugsar það með sér hvað börn geta verið vond. „Hversu oft hefur maður heyrt : Börn geta verið svo grimm! Börn vita ekki hversu alvarlegar afleiðingar einelti getur haft! Börn læra þetta af YouTube eða Tiktok! Börn börn börn…..“ segir hún og spyr þá hvort ábyrgðin liggi ekki hjá fullorðna fólkinu.
„En hvað með okkur fullorðna fólkið? Er afsökun að fólk er bara grimmt? Er málfrelsi afsökun? Veit fullorðið fólk hversu alvarlegar afleiðingar einelti geta haft? Lærum við þetta af bíómyndum eða Tiktok?
Einhvers staðar þarf þetta að stoppa og sem fullorðið fólk finnst mér við eiga að taka fyrsta skrefið því við eigum að vera komin á það þroskastig að við getum leiðrétt ranga hegðun sem við kannski áttum okkur ekki á hversu alvarleg sú hegðun er fyrr en okkur er bent á það.. svo ég ætla benda!“
Í færslunni lætur Hafdís fylgja myndir af fjölmörgum ljótum athugasemdum sem Íslendingar hafa látið falla í athugasemdum samfélagsmiðla. „Ég ætla biðja þig um að hugsa þig tvisvar sinnum um áður en þú finnur þig knúin til þess að skrifa hversu heimskur aðilinn í fréttinni er!“ segir hún.
„Hversu heimskar stelpur á Instagram eru! Hversu athyglissjúk fórnalömbin eru sem verða fyrir ofbeldi eða nauðgun! Hversu mikill fáviti maðurinn/konan er sem bauð upp á þetta comment með því að vera „áhrifavaldur“ eða opinber persóna!“
Hafdís bendir þá á að athugasemdirnar sem hún tók eru einungis brotabrot af ljótu athugasemdunum sem skrifaðar eru við ýmsar fréttir á netinu. Þá bendir hún einnig á að þær eru allar skrifaðar af fullorðnum einstaklingum.
„Ég hvet þig til þess að lesa yfir þessi comment og síðan bið ég þig um að lesa aftur yfir þessi comment eins og þú sért að lesa skilaboð sem barnið þitt hefur fengið sent frá þessu FULLORÐNA liði… Myndir þú ekki láta í þér heyra? Myndir þú ekki segja stopp?“
Að lokum segir Hafdís að hún vildi óska þess að ekki væri hægt að skrifa athugasemdir við fréttir í dag. „Því mér finnst virkilega sorglegt og ógeðslegt að sjá hvað fólk leyfir sér að skrifa um annað fólk,“ segir hún.
„Getum við please vandað okkur og sleppt skítköstum og farið að dreifa aðeins meiri kærleik? Tökum ábyrgð og breytum.“
View this post on Instagram