Sá sem grunaður er um að hafa skotið á par í Grafarholti í nótt og er nú í haldi lögreglu heitir Hrannar Fossberg Viðarsson. Hrannar er fæddur í febrúar 1999 og hefur þrátt fyrir ungan aldur komið ítrekað við sögu lögreglu og hlotið fjölda refsidóma fyrir brot sín. Þá hefur hann fengið dóm fyrir að skjóta úr byssu án tilskilinna leyfa.
Parið, karl og kona, voru flutt særð á slysadeild eftir árásina en þau eru ekki talin í lífshættu samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni. Von er á tilkynningu síðar í dag um málið en lögreglan hefur sagt að um einstakt mál sé að ræða og að almenningi sé ekki hætta búin vegna þess.
Hrannar hefur stigið fram í fjölmiðlum og rætt erfiða ævi sína. Hann leiddist ungur út í neyslu og kom að lokuðum dyrum í kerfinu þegar hann reyndi að leita sér hjálpar. Þegar hann var sextán ára gamall hlaut hann skilorðsbundinn dóm fyrir tilraun til manndráps og stórfellda líkamsáras en hann var aðeins 15 ára gamall þegar brotin áttu sér stað.
Í viðtali við Vísi í desember 2017 var hann titlaður sem yngsti fangi landsins en þá var hann vistaður í síbrotagæslu á Hólmsheiði aðeins 18 ára að aldri. Þar hafði Hrannar orð á því að fangelsið væri besta meðferðarúrræði sem hann hafði komist í kynni við en lítið væri við að vera varðandi vinnu og að hann hafi ekki fengið nein svör við tilraunum sínum til að skrá sig í framhaldsskólanám.
Í febrúar 2018 greindi DV frá því að Hrannar, þá nýorðinn 19 ára gamall, hafi verið dæmdur í fimm ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir margvíslega brot – meðal annars fyrir brot á vopna-, fíkniefna-, og umferðarlögum auk hótanna um ofbeldi. Þungur dómur Hrannars helgaðist af því að með afbrotunum hafði hann rofið hinn skilorðsbunda dóm sem hann hlaut tveimur árum fyrr.