Fjölmiðlahjónin Einar Þorsteinsson og Milla Ósk Magnúsdóttir hafa sett sérhæð sína við Álfhólsveg í Kópavogi á sölu. Íbúðin er rúmir 165 fermetrar að stærð en hjónin keyptu eignina í byrjun árs 2019. Ásett verð fasteignarinnar er 96,2 milljónir króna.
Það vakti mikla athygli á dögunum þegar Einar tilkynnti brotthvarf sitt úr starfi sjónvarpsfréttamanns hjá Ríkisútvarpinu en þar hafði hann starfað um árabil og var orðinn eitt af andlitum stofnunarinnar. Hann fylgdi þar með í fótspor Millu Óskar sem kvaddi sömu stofnun nokkru fyrr og tók að sér starf aðstoðarmanns mennta- og menningarmálaráðherra Lilju Alfreðsdóttur. Hún kvaddi síðan Lilju þegar síðasta kjörtímabili lauk og starfar í dag sem aðstoðarmaður Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra.
Einar hefur ekki enn upplýst um næsta áfangastað sinn á vinnumarkaði og í kjölfarið hófust háværir orðrómar um að hann lægi undir feldi varðandi það að bjóða sig fram í oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi og væri með augun á bæjarstjórastólnum sem Ármann Kr. Ólafsson hyggst yfirgefa í lok kjörtímabilsins.
Heimildir DV herma að Einar hafi vissulega verið hvattur til þess að íhuga framboð í Kópavog en næsta skref þeirra hjóna á fasteignamarkaði snöggkæla þær sögusagnir. Einar og Milla Ósk hafa nefnilega fjárfest í einbýlishúsi í Seljahverfi í Reykjavík sem þýðir að Einar yrði ekki kjörgengur í Kópavogi.
Áður en nýjar sögusagnir blossa upp þá er rétt að geta þess að Einar er víst ekki á þeim buxunum að sækjast eftir oddvitasætinu hjá Sjálfstæðisflokknum í höfuborginni. Þau hjónin eiga von á sínu fyrsta barni á þessu ári og því má reikna með að næg verkefni séu framundan hjá þeim á öðrum vígsstöðvum.
Sjá einnig: Milla og Einar eiga von á erfingja:„Þrjú á leið á árshátíð“