Í kjölfarið fór samningurinn að ganga út á að fólk sætti sig við að missa lýðræðisleg réttindi gegn því að það hefði það betra fjárhagslega. Þetta gerði Pútín kleift að herja á stjórnarandstöðuna og ná tökum á fjölmiðlum.
Þetta sagði Andrey Kazankov, fréttamaður Weekendavisen í Rússlandi, í samtali við TV2.
Hann sagði að árum saman hafi þessi samningur fært Pútín og almenningi ákveðinn ávinning. Efnahagslífið hafi verið í blóma og aðeins örfáar raddir innan stjórnarandstöðunnar gagnrýndu völd og valdagræðgi Pútíns.
En 2014 varð breyting þar á þegar Pútín ákvað að ráðast á Krím og innlima í Rússlands. Vesturlönd brugðust við með refsiaðgerðum sem komu ekki aðeins niður á Pútín heldur einnig rússnesku efnahagslífi. Hinn almenni Rússi fann fyrir þessu því verðlag hækkaði og hagvöxtur varð mun minni en áður.
Kazanov sagði að með þessu hafi Pútín gert nýjan samning við þjóð sína því hann hafi ekki lengur getað tryggt hagvöxt og stöðugleika. Í staðinn hafi hann ætlað að endurreisa Rússland sem stórveldi. Hann sagði að það hafi verið á grunni þessa samnings sem Pútín réðst inn í Úkraínu í febrúar.
„Það varð þó fljótlega ljóst að ekki yrði um eins skjótan sigur að ræða í Úkraínu og Pútín hafði reiknað með. Samt sem áður var samningur í gildi í rúmt hálft ár um að Rússar myndu styðja stríðið svo lengi sem það kæmi ekki niður á þeim fjárhagslega, svo lengi sem þeir og fjölskyldur þeirra myndu ekki dragast inn í stríðið,“ sagði hann og bætti við að Pútín hafi rift þessum samningi í lok september þegar hann greip til herkvaðningar.
Nú snerti stríðið daglegt líf Rússa og margar skoðanakannanir sýni að meirihluti þjóðarinnar vilji friðarviðræður frekar en áframhaldandi stríð. Kazanov sagði að Pútín eigi á hættu að þjóðin sætti sig ekki við þennan nýja samning, sem feli í sér að hluti þjóðarinnar verði að deyja í stríðinu gegn því að Pútín tryggi stöðu Rússlands sem stórveldis.
Hann sagði að þetta þýði þó ekki endilega að Pútín sé að missa tökin á valdataumunum. Jafnvel þótt þjóðin rifti samningnum geti hann líklega haldið áfram að stýra landinu með því að kúga þjóðina og halda henni niðri.