Talsmaður úkraínska utanríkisráðuneytisins segir að pakkarnir hafi verið gegnumvættir af vökva með sérstökum lit og lykt. Þeir bárust í sendiráðin í Ungverjalandi, Póllandi, Króatíu og Ítalíu. Einnig fengu aðalræðismenn Úkraínu í Napólí og Krakow svona sendingar. Talsmaðurinn skrifaði á Facebook að verið sé að rannsaka hvaða skilaboð sé verið að senda með þessu.
Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, hefur fyrirskipað að öryggisgæsla við sendiráð landsins og ræðismannsskrifstofur verði hert. Hann sagði að ástæða sé til að ætla að hér sé um velskipulagða herferð að ræða sem sé ætlað að valda ótta meðal starfsfólks sendiráða og ræðismannsskrifstofa.