Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Gunnari Þorgeirssyni, formanni Bændasamtaka Íslands og garðyrkjubónda í Ártanga í Biskupstungum, að hjá stórframleiðendum þýði þetta mörg hundruð þúsunda króna aukakostnað.
Hann sagði þetta mjög bagalegt á þessum árstíma því þá er framleiðsla á blómum og grænmeti einna mest.
„Suma daga birtir ekki af degi – og við þurfum því, flestir hverjir, að lýsa að minnsta kosti um fimmtán prósentum meira en vanalega þegar snjóa nýtur við. Og það kostar sitt,“ sagði hann.
Ekki er tekið tillit til aðstæðna af þessu tagi í niðurgreiðslum ríkisins á raforkuflutning til bænda og því lendir allur kostnaðurinn á bændum.
Gunnar sagði að í venjulegu árferði, þegar snjórinn lýsir mesta skammdegið upp, sé hægt að slökkva á lýsingunni í allt að sex klukkustundir yfir hádaginn en það sé ekki hægt núna.