Marie-Agnes Strack-Zimmermann, formaður varnarmálanefndar þingsins, gagnrýndi Scholz í viðtali við RND fyrir að hika við að senda Úkraínumönnum enn betri hergögn.
„Höfnun kanslarans á að senda skriðdreka til Úkraínu í miðri baráttu landsins fyrir tilveru sinni er ekki aðeins óskiljanleg, hún er óhugnanlega skammsýn. Staðan er hörmuleg,“ sagði Marie-Agnes Strack-Zimmermann en hún er þingmaður FDP sem er í ríkisstjórn.
Rök Scholz fyrir að senda Úkraínumönnum ekki skriðdreka hafa verið að það myndi valda óeiningu innan NATO og að slík sending gæti ögrað Rússum og þeir stigmagnað stríðið í framhaldi.
Strack-Zimmermann gaf ekki mikið fyrir þessi rök og sagði að svo virðist sem ummæli Rússa hræði Scholz frá að senda Úkraínumönnum skriðdreka. „Sérhver sá, sem endurtekur söguna um að farið verði yfir rauðu línu Rússa ef skriðdrekar verða sendir, segir sögu árásaraðilans, ekki fórnarlambanna,“ sagði hún.
Óskir Úkraínumanna um Leopard 2 valda einnig deilum í finnsku ríkisstjórninni. Þar hafa tveir þingmenn úr stjórnarflokkunum farið gegn stefnu ríkisstjórnarinnar og farið fram á að Finnar sendi Úkraínumönnum nokkra Leopard skriðdreka. Segja þingmennirnir að ef Finnar sendi skriðdreka geti það ýtt við öðrum bandamönnum Úkraínu þannig að þeir sendi einnig skriðdreka.