Ríkislögreglusjóri hefur hækkað viðbúnaðarstig lögreglu úr A í B og uppfært um leið kvarða um hættustig hryðjuverka til samræmis við þann kvarða sem flest Norðurlönd og meginhluti Evrópu notast við, en það er fimm stiga kvarði í stað fjögurra stiga. Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn alþjóðasviðs Ríkislögreglustjóra, segir í viðtali við DV, að Ísland sé nú á þriðja hættustigi sem skilgreint er „aukin ógn“. Það þýðir að til staðar er ásetningur og/eða geta og hugsanleg skipulagning hryðjuverka.
Hryðjuverkamálið margumrædda er ástæðan fyrir því að viðbúnaðarstig lögreglu var hækkað úr A í B en uppfærsla á hættustigi hryðjuverka er afrakstur vinnu sem þegar var komin í gang, áður en hryðjuverkamálið kom upp.
„Við hækkuðum viðbúnaðarstig lögreglu úr því lægsta í það næstlægsta. Þetta snýr að því að almenningur verður ekki sérstaklega var við breytingar hjá lögreglu, eða ég myndi ekki telja það. Þetta snýr fyrst og fremst að viðbrögðum og verklagi hjá lögreglu,“ segir Karl Steinar.
Um breytingu á hættustigskvarðanum, úr fjórum stigum í fimm sig, segir Karl Steinar að það séu breytingar sem hafi staðið til í nokkurn tíma, það sé flókið að vera með öðruvísi kvarða en hin Norðurlöndin. Öll Norðurlöndin, að Finnum undanskildum, séu nú með fimm stiga kvarða. Flókið sé að vera eitt fárra landa með fjögurra stiga kvarða. Karl Steinar segir að hryðjuverkamálið hafi valdið því að ákveðið var að flýta þessari vinnu, því sé málið óbeint tengt uppfærslunni á kvarðanum um hryðjuverkahættu.
Hryðjuverkahætta á Íslandi er nú sambærileg við hættu í Noregi og Svíþjóð, ef mið er tekið af því að Ísland staðsetur sig nú á þriðja hættustigi. „Það er meiri hætta í Danmörku. Finnar eru síðan með annan kvarða en Færeyjar og Grænland eru með lægra hættustig,“ segir Karl Steinar.
DV benti Karli Steinari á að sú spurning brenni á almenningi og fjölmiðlum hvaða hættu nákvæmlega lögregla telji stafa af sakborningunum í hryðjuverkamálinu sem nú hafa verið látnir lausir og bíða réttarhalda.
„Við höfum ekki forsendur til að tala um þetta sakamál en það eru gögn sem liggja fyrir. En við metum stöðuna svo að það sé ástæða til að vera með aukinn viðbúnað lögreglu ef eitthvað kæmi upp á. Það er mikilvægt að fólk upplifi ekki óþarfa öryggi. Við teljum okkur vera með málið í föstum tökum og að þessi aukni viðbúnaður sé til að stuðla að því öryggi. Það er líka okkar hlutverk.“
Þarf almenningur að hafa áhyggjur af yfirvofandi hryðjuverkum núna?
„Við teljum að þessi viðbrögð okkar séu til þess fallin að almenningur þurfi ekki að hafa áhyggjur, “ segir Karl Steinar. Aukin viðbragðsstaða og skilgreindir ferlar um hvað gera eigi ef eitthvað kemur upp séu til staðar.