Þeir Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn á alþjóðasviði Ríkislögreglustjóra, og Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra Snæs Birgissonar, sakbornings í hryðjuverkamálinu, gefa lítið fyrir álit hvors annars á stöðu málsins.
DV ræddi við báða mennina í dag í tilefni af tilkynningu embættis ríkislögreglustjóra þess efnis að viðbúnaðarstig lögreglu hefði verið hækkað í kjölfar þess að sakborningarnir tveir í hryðjuverkamálinu voru látnir lausir úr gæsluvarðhaldi eftir tæplega þriggja mánaða gæsluvarðhaldsvist. Úrskurðir bæði Landsréttar og héraðsdóms fyrr í mánuðinum, þess efnis að gæsluvarðhald skyldi ekki framlengt yfir mönnunum er grundvallað á geðmati sem segir þá hvorki hættulega sjálfum sér né öðrum.
Sveinn Andri sagði í viðtali við DV að tilkynning Ríkislögreglustjóra í dag væri sýndarmennska. Orðrétt sagði hann: „Þetta er greinilega spurning um eitthvert stolt hjá ríkislögreglustjóra. Þetta er bæði sóun á almannafé og aðgerð sem gerir ekkert annað en að vekja upp ótta hjá fólki með kvíðaröskun.“
Fréttablaðið bar þessi ummæli verjandans undir Karl Steinar sem gaf sterklega í skyn að Sveinn Andri væri úti í horni með þessa skoðun sína. Karl Steinar sagði:
„Lögregla hefur ákveðna ábyrgð og skyldur gagnvart öryggi almennings,“ segir hann. „Við tökum allar okkar ákvarðanir byggðar á þeim gögnum sem við höfum í höndunum og okkur ber að gera það, hvort sem fólki líkar betur eða verr. Við kjósum að nálgast alla þá sem við erum í samvinnu við út frá fagmennsku og okkur ber að upplýsa almenning um stöðuna. Það er okkar hlutverk og við gerum það hvort sem einhverjum verjanda þykir það fáránlegt eða ekki. Hann verður þá að búa við það í sinni einsemd.“
Sveinn Andri ritar Facebook-pistil um viðtal Fréttablaðsins við Karl Steinar. Hann furðar sig á athugasemd Karls Steinars um meinta einsemd hans:
„Ekki veit ég hvað lögreglan á við með þessari síðustu athugasemd, en ljóst er strax af henni að fagmennskan er ekki upp á marga fiska.“
Sveinn Andri rekur síðan meinta ófagmennsku lögreglu í málinu. Hann segir meðal annars að í stað þess að rannsaka málið með faglegum hætti hafi lögregla lagt alla áherslu á að renna stoðum undir þær ásakanir sem hún viðraði á blaðamannafundi um málið í september:
„Fagleg yfirstjórn lögreglu hefði, út frá öryggi og til að skapa ekki óþarfa hræðslu, rannsakað málið með leynd, á meðan verið væri að ná utan um öll málsatvik. Með nokkurn veginn fullupplýst mál í höndunum hefði mátt greina almenningi frá hvers eðlis hefði verið. Eða sleppa því. Blaðamannafundurinn í september hefði ekki átt að eiga sér stað, en þar misst lögreglan stjórn á upplýsingaflæðinu eins og hreinn sveinn á fyrsta stefnumóti
Í stað þess að rannsaka málið með faglegum hætti, hefur öll rannsókn málsins gengið út á það eitt að renna stoðum undir alla þá flóðbylgju ásakana og upplýsinga sem lögreglan asnaðist til að láta frá sér á blaðamannafundinum. Þetta er það sem í lögreglufræðum er kallað „rörsýn“ sem lögreglunemum er kennt að forðast eins og heitan eldinn við rannsókn sakamála.“
Sveinn Andri spyr síðan í loks pistilsins hvort búið sé að leggja hald á óskráð skotvopn sem fundust á heimili föður Ríkislögreglustjóra:
„Úr því að hinn faglegi ríkislögreglustjóri tekur öryggi almennings svo alvarlega, sem og upplýsingaskyldu sína við almenning, þá er rétt að spyrja:
Er lögreglan búin að leggja hald á öll þau óskráðu skotvopn sem fundust á heimili föður ríkislögreglustjóra? Svar óskast.“