Í febrúar á þessu ári voru tvær konur og einn karlmaður dæmd í fangelsi fyrir stórfelldan innflutning á fíkniefnum. Konurnar eru fæddar árið 1978 og 1963 en karlmaðurinn er mun yngri, fæddur 1993. Hann var að auki sakfelldur fyrir peningaþvætti, þ.e. með því að hafa aflað sé fjárhagslegs ávinnings af sölu og dreifingu fíkniefna.
Landsréttur þyngdi dómana yfir fólkinu í október um hálft ár hvert og hlaut maðurinn 3 ára fangelsi en konurnar 2ja ára fangelsi hvor.
Fíkniefnin voru yfir 400 g af kristölluðu metamfetamíni, 854 af OxyContin og mörg þúsund töflur af öðrum ávanabindandi lyfjum.
Konurnar fluttu fíkniefnin til landsins sem farþegar með flugi frá Póllandi í pakkningum sem þær földu í brjóstahöldurum sínum. Hér á Íslandi afhentu þær manninum efnin. Lögreglan fylgdist með ferðum kvennanna og kom því auðveldlega upp um þær og manninn. Er lögregla handtók manninn fundust efnin í bíl hans.
Konurnar tvær sátu mjög lengi í gæsluvarðhaldi vegna málsins eða frá því í október 2021 og þar til í byrjun ágúst á þessu ári en maðurinn sat inni í um hálfan mánuð í október.
Svo virðist sem fólkið sé horfið af landi brott, þó að ekki sé það staðfest, en sem fyrr segir hefur ekki tekist að birta því dóm Landsréttar sem féll 21. október síðastliðinn.