Að minnsta kosti 55 hafa látist af völdum veðursins í Bandaríkjunum og fjórir í Kanada. Í Bandaríkjunum eru 28 dauðsföll í New York rakin til veðursins. Flest þeirra í Erie County þar sem borgin Buffalo hefur orðið illa úti.
Sky News segir að Joe Biden, forseti, hafi heimilað að New York ríki fái aðstoð frá alríkinu vegna veðursins og afleiðinga þess. Tugir þúsunda heimila hafa verið án rafmagns og fólk hefur ekki komist út úr húsi. Margir hafa setið fastir í bílum sínum, sumir í meira en tvo daga að sögn Mark Polocarz, talsmanns yfirvalda í Erie County. Hann sagði að björgunaraðilar hafi átt í erfiðleikum með að komast til fólksins vegna veðursins.
Kathy Hochul, ríkisstjóri í New York, sagði um helgina að margir sjúkra- og slökkviliðsbílar sætu fastir í snjó og lögreglan í Buffalo bað eigendur snjósleða um hjálp.