En þetta var ekki rétt að því er segir í umfjöllun bandarísku hugveitunnar Institute for the Study of War sem fylgist náið með gangi stríðsins.
Segir hugveitan að Shoigu hafi verið á rússneskum yfirráðasvæðum á milli Krím og Kherson þegar hann átti að hafa verið í fremstu víglínu.
Þegar þetta komst upp rigndi gagnrýni yfir Shoigu á samfélagsmiðlum og sögðu margir þetta vera dæmi um að hann sé ekki stríðsleiðtogi sem tekur þátt í stríðinu.
Það bætti svo enn meira í gagnrýnina í garð Shoigu þegar Volodymyr Zelenskyy, forseti Úkraínu, heimsótti úkraínska hermenn í bænum Bakhmut í austurhluta Úkraínu en þar hafa grimmdarlegir bardagar staðið yfir vikum saman.
Allt þetta varð til þess að Shoigu var sendur af stað á nýjan leik þann 22. desember og að þessu sinni fór hann til hermanna í fremstu víglínu. Að vísu var frásögn rússneska varnarmálaráðuneytisins þá að þetta hafi verið í annað sinn á viku sem hann heimsótti fremstu víglínu.
Institute for the Study of War segir þetta sýna að Rússar verði stöðugt að bregðast við gagnrýni í stað þess að geta tekið frumkvæðið.