fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
Fréttir

Meiðyrðamálin á árinu – Agnes sakfelld en Sindri sýknaður – „Það má ekki nota þennan málstað sem skálkaskjól“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 26. desember 2022 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það má ekki nota þennan málstað sem skálkaskjól til að láta óviðurkvæmileg ummæli falla og nýta þann málstað til að réttlæta slíkt. Það kom skýrt fram í málflutningnum. Þetta mál á ekkert skylt við Metoo,“ sagði lögmaðurinn Gunnar Ingi Jóhannsson í samtali við DV þann 15. nóvember síðastliðinn. Samtalið átti sér stað í Héraðsdómi Reykjavíkur skömmu eftir að kveðinn hafði verið upp dómur í meiðyrðamáli sem Aldís Baldvinsdóttir höfðaði á hendur Agnesi Bragadóttur.

Agnes var sakfelld fyrir meiðyrði og ummæli sem hún lét falla um Aldísi í Facebook-færslu árið 2021 voru öll dæmd dauð og ómerk. Var Agnes dæmd til að greiða Aldísi 600 þúsund krónur í miskabætur og um 1,5 milljónir í málskostnað.

Rétt eins og önnur mest áberandi meiðyrðamál á árinu hefur þetta mál tengingu við umfjöllun og umræðu um kynferðisbrot og metoo-byltinguna. Agnes birti eftirfarandi skrif í tengslum við réttarhöld yfir Jóni Baldvin Hannibalssyni vegna ákæru um kynferðislega áreitni við Carmen Jóhannsdóttur, en Agnes taldi kæru Carmenar á hendur Jóni runna undan rifjum Aldísar:

„Hætti Aldís ekki sínum lygum og óþverraskap í garð BSchr og JBH þá mun ég gefa hér, á þessum vettvangi, nákvæma lýsingu á því, hvernig hún reyndi að nauðga mér á læstri sjúkrastofu sinni á deild 33 geðdeild, þar sem ég algörlega skíthrædd, var læst inni með froðufellandi kynlífsbrjálaðri graðkerlingu, þegar ég var að gera það sem BSchr og JBH báðu mig um að gera, sinna dóttur þeirra, sýna vináttu og væntumþykju, þegar þau voru svo langt í burtu.“

Um Jón Baldvin og Bryndísi sagði Agnes í þessari færslu:

„…verið mínir bestu vinir, í svo ótrúlega langan tíma, og reynst mér sem slíkir allan tímann, án þess að nokkurn tíma félli skuggi á. Fyrir vináttu ykkar, umhyggju og ást verð ég þakklát, svo lengi sem ég lifi.“

Agnes sagði ennfremur:

„Þegar þið byrjuðuð í þessum viðurstyggilega leðjuslag við Laufeyju og Carmen, þar sem aðalhvatamaður og leikstjóri er Aldís nokkur, svokölluð dóttir ykkar, kippir í þræði, eins og hentar, hjá Laufeyju og Carmen, ákvað ég, að ég myndi ekki koma nálægt þessum viðbjóði, vegna fyrrum trúnaðarsambands míns við Aldísi. Þeim trúnaði hefur verið aflétt nú, að mínu mati, vegna þess að hin „alheilbrigða Aldís“ rauf þann trúnað með óumræðilegum óþverraskap og lygum.“

Dómarinn sagði ummælin ósmekkleg, rætin og móðgandi, þau fælu í sér hótun um ófarnað og væru auk þess ærumeiðandi aðdróttun um refsiverði háttsemi Aldísar. Taldi dómarinn að ekkert hefði komið fram í málinu sem réttlætt gæti ummælin og þau væru hvorki studd gögnum né rökum.

Hallaði undan fæti í málsóknum Hugins

Ólíkt Aldísi höfðu fæstir stefnendur erindi sem erfiði í áberandi meiðyrðamálum á árinu. Þar missti nokkurn vind úr sínum seglum Huginn Þór Grétarsson, bókaútgefandi og rithöfundur, sem staðið hefur í miklum málaferlum undanfarin ár. Hefur hann sótt að fólki sem kallað hefur hann ofbeldismann og öðrum ónefnum í umræðum á samfélagmiðlum sem blossað hafa upp í tengslum við forræðisdeilu Hugins við finnska barnsmóður hans.

Huginn Þór Grétarsson

Áður en þetta ár rann upp hafði Huginn fengið fjórar manneskjur sakfelldar fyrir meiðyrði í sinn garð en í marsmánuði sneri Landsréttur við sektardómi héraðsdóms vegna þessarra ummæla Elíasar Halldórs Ágústssonar:

„Huginn Thor Grétarsson, veistu, ég hef talað við margar konur sem hafa hitt þig og þær segja allar það sama, að þú sért augljóslega ofbeldismaður, því þú getir ekki séð konu án þess að sýna henni ógnandi tilburði.“

„… ég hef mínar upplýsingar frá fólki sem hefur enga ástæðu til að gera út sögur um hann. Það er ekki fólk sem er  í mínum femínistagrúppum, ekki einu sinni dóttir mín sem hefur verið þýðandi og túlkur fyrir finnska fyrrverandi eiginkonu; hún hefur ekki sagt orð um hann, nema að það kemur á hana viðbjóðsgretta þegar hún heyrir nafn hans nefnt. Ég hef mínar upplýsingar frá fólki sem hitti hann af tilviljun og þótti hann  minnisstæður einmitt fyrir þetta. Kannski myndirðu þekkja hann fyrir allt annan mann værir þú kona.“

„Huginn Thor Grétarsson, það eru engar dylgjur, það er algjörlega klárt mál að þú ert ofbeldismaður.“

Huginn byggði mál sitt meðal annars á því að Elías hefði sakað hann um refsiverða háttsemi án þess að leggja fram sannanir fyrir fullyrðingum sínum. Á þessi sjónarmið féllst héraðsdómur árið 2021. Elías byggði vörn sína meðal annars á því að ofbeldishugtakið hefði verið gjaldfellt og ásökun um ofbeldi táknaði ekki að umrædd háttsemi félli undir hegningarlög. Til dæmis hefðu skattar verið kallaðir ofbeldi í þjóðmálaumræðu á netinu. Elías taldi ennfremur ummæli sín eðlileg í samhengi við þá fjölmiðlaumræðu sem þau birtust í, en það voru meðal annars fréttir þar sem ásakanir voru bornar á Hugin.

Landsréttur var í takti við sjónarmið Elíasar sem taldi þessa tjáningu hans lögmæta enda verði að skýra allar takmarkanir á tjáningarfrelsi þröngt. Huginn hefði verið mjög virkur í þjóðfélagsumræðu er varðar tálmanir, forræðisdeilur og réttindi feðra, og ummæli Elíasar hefðu fallið í tengslum við þá umræðu. Þá telur Landsréttur að ummæli Elíasar hafi ekki haft mikil skaðleg áhrif á orðspor Hugins sem barnabókahöfundar eins og hann hélt fram. Í dómi Landsréttar segir meðal annars:

„Líkt og lýst er að framan og í hinum áfrýjaða dómi var forsjármál gagnáfrýjanda og barnsmóður hans til umfjöllunar í fjölmiðlum og var sú umræða liður í umfjöllun um rekstur forsjármála, réttindi karla, kvenna og barna í slíkum málum, stöðu erlendra foreldra, tálmanir, kynbundið ofbeldi og fleira. Þá var gagnáfrýjandi meðal forvígismanna svonefndrar #[…]-hreyfingar sem kveðast meðal annars berjast gegn tálmunum mæðra, auk þess sem hann stóð að stofnun Samtaka um karlaathvarf sem ætlað var að veita þjónustu „fyrir hin fjölmörgu karlkyns fórnarlömb ofbeldis og kúgunar“. Enginn vafi er á því að umræða um framangreind atriði á erindi við
almenning og þau ummæli sem deilt er um í málinu féllu í þjóðfélagsumræðu um þau.“

Tapaði máli gegn barnsmóður sinni

Þann 27. september síðastliðinn kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm í meiðyrðamáli sem Huginn höfðaði gegn umræddri finnskri barnsmóður sinni. Krafðist Huginn þess að 14 ummæli konunnar, sem flest inniheldu ásakanir um meint andlegt ofbeldi hans, verði dæmd dauð og ómerk, auk þess krafðist hann fimm milljóna króna í miskabætur. Ummælin voru ýmist látin falla í viðtali konunnar við Stundina eða á Facebook.

Meðal ummælanna sem Huginn krafðist ómerkingar á voru eftirfarandi:

„Skömmu eftir komu mæðgnanna til landsins sá móðirin sig tilneydda að flytja ásamt barninu í C eftir að barnsfaðir hennar hótaði að taka af henni barnið og vegabréf þess“

„Fyrstu þrjár vikurnar var ég mjög hrædd því hann hringdi stöðugt í mig og sendi mér tölvupósta þar sem hann hótaði því að ef ég kæmi ekki með son okkar kæmu lögreglan og félagsmálayfirvöld og tækju hann af mér“

„… andlega óe ndanlega ofbeldisfullur aðili fer illa með mig, fær að […] leika skítugan leik og reynir auk alls þessa að ræna barn mitt móður sinni með því að ljúga augu og eyru utanaðkomandi full af skít. Grimmdin hefur engin mörk.“

Huginn taldi ummælin fela í sér stórfelldar ærumeiðingar gegn sér enda hafi konan gert allt sem hún gat til að ummælin næðu til sem flestra. Sagði hann svo stórfelldar ærumeiðingar gegn einum einstaklingi vera vandfundnar í íslenskri réttarsögu.

Héraðsdómur sýknaði konuna af kröfum Hugins meðal annars á þeim forsendum að ummælin hefðu verið sett fram í góðri trú þar sem hún hefði verið að lýsa sinni upplifun og reynslu. Ummælin væru jafnframt innlegg í mikilvæga þjóðfélagsumræðu um stöðu foreldra og barna sem eigi erindi við almenning. Huginn hefði einnig sjálfur tekið þátt í umræðu um mál sín á opinberum vettvangi og það skerði einkalífsvernd hans.

Í samtali við DV sagði Huginn að ekki ætlaði hann bara að áfrýja dómnum til Landsréttar heldur fara alla leið með þetta og önnur óunnin mál sem hann hefur höfðað. „Þessi mál fara alla leið til Mannréttindadómstóls Evrópu, ef til þarf,“ sagði hann og bætti við að málið sem snúið var við í Landsrétti sé á leiðinni til MDE.

Sindri Þór er ósigraður

Tvö meiðyrðamál voru höfðuð gegn Sindra Þór Sigríðarsyni vegna óheflaðra ummæla sem hann lét falla á árinu 2021 í tengslum við nýja bylgju metoo-byltingarinnar sem reis þá um sumarið.

Sindri Þór Sigríðarson. Mynd: Sigtryggur Ari.

Athafnamaðurinn Sverrir Einar Eiríksson, sem er einna þekktastur fyrir rekstur Nýju Vínbúðarinnar, stefndi Sindra fyrir eftirfarandi ummæli sem Sindri viðhafði um hann á Twitter og Facebook:

„Þetta er Sverrir. Sverrir á og rekur Nýju Vínbúðina. Sverrir eltir, áreitir og niðurlægir konur á internetinu. Konur sem berjast gegn kynferðisofbeldi. Meðlimi Öfga. Ekki vera eins og Sverrir.“

„Þetta er Sverrir. Sverri finnst konur svo lítils virði að hann sér enga ástæðu til að hjálpa þeim ef þær hleypa ekki uppá sig að launum. Ekki vera eins og Sverrir.“

Forsaga ummælanna voru umræður og deilur um knattspyrnumanninn Kolbein Sigþórsson og vel þekkt mál hans tengd atvikum á skemmtistaðnum B5 haustið 2017. Sverrir Einar sótti hart fram í þeim umræðum, svo hart að Sindra misbauð, að minnsta kosti eftir að Sverrir hafði sent slatta af einkaskilaboðum á þau sem hann deildi við, meðal annars konur sem eru meðlimir í baráttuhópnum Öfgar.

Sverrir sagði að Sindri hefði sakað sig um andstyggilega og refsiverða háttsemi og vegið gróflega að æru sinni. Vildi hann að ummælin yrðu dæmd dauð og ómerk og Sindri yrði dæmdur til að greiða sér 1,5 milljónir í miskabætur.

Dómarinn féllst ekki á þetta og hafnaði því að ummæli Sindra um Sverri fælu í sér fullyrðingar um saknæmt athæfi heldur hefði Sindri augljóslega verið að vísa til framgöngu Sverris á netinu.

Sverrir áfrýjaði málinu til Landsréttar sem vísaði því frá.

Tekist á um merkingu orðalagsins „að ríða börnum“

Í lok maí var Sindri síðan sýknaður í meiðyrðamáli sem tónlistarmaðurinn Ingólfur Þórarinsson, Ingó Veðurguð, höfðaði gegn honum vegna ýmissa ummæla þar sem orðalagið „að ríða börnum“ kom fyrir.

Málsvörn Sindra fólst meðal annars í því að hann hefði aldrei sakað tónlistarmanninn um lögbrot því einstaklingar undir 18 ára aldri teljist börn í lagalegum skilningi. Orðalagið hefði vissulega verið óheflað en úthugsað þar sem hann hafi með því verið að gagnrýna að það framferði fullorðinna karlmanna að hafa mök við stúlkur á aldrinum 15-17 ára grasseraði í samfélaginu. Ummælin væru lögleg samkvæmt túlkun hans á meiðyrðalöggjöfinni, en um þetta sagði Sindri í viðtali við DV:

„Þessi túlkun mín er ekki úr tekin úr lausu lofti, það eru til dómar í hæstarétti þar sem sérstaklega er tekið fram að í meiðyrðamáli séu ummæli um einhvern sem hægt sé að túlka að séu ekki ásökun um refsiverða hegðun, þar sem hægt er að túlka slíkt af eða á, að slík ummæli geti ekki talist meiðyrði. Með það í huga þá dansa ég á þessari línu.“

Ekki er hægt að segja að vitnisburðir og gögn sem teflt var fram í málsvörn Sindra hafi tekið af öll tvímæli um meint athæfi Ingós, þ.e. samfarir hans sem fullorðins karlmanns við ungmenni. Engin vitni greindu þar frá beinum samskiptum við hann og blaðamenn sem fylgdust með þinghaldinu áttu von á meira sláandi vitnisburði en þar kom fram.

Það var hins vegar mat dómara að ummæli Sindra hafi verið sett fram í góðri trú og verið látin falla í skoðanaskiptum um brýnt samfélagslegt málefni. Ennfremur vísaði dómarinn til fjölmargra nafnlausra ásakana þar sem staðhæft var að Ingó hefði ítrekað leitað eftir nánum kynnum við stúlkur á aldrinum 14 til 15 ára. „Með vísan til þessara frásagna, sem allar voru birtar opinberlega og undir nafni, um að stefnandi hefði ítrekað leitað eftir nánari kynnum við stúlkur á aldrinum 14 til 15 ára verður að telja að stefndi hafi leitt nægilegar líkur að því að ummælin sem kröfur stefnanda í liðum 1 til 5 lúta að hafi verið réttlætanleg og að hann hafi verið í góðri trú um að þau væru sönn,“ segir í dómnum og ennfremur þetta:

„Þá verður að jafnframt að hafa í huga að ummælin voru látin falla í skoðanaskiptum um brýnt samfélagslegt málefni, sem lýtur að því hvaða ábyrgð þjóðþekktir og frægir einstaklingar skuli bera á háttsemi eins og að nýta áhrif sín og samfélagsstöðu til að eiga kynferðislegt samneyti við unga og óharðnaða einstaklinga.“

Ingó hefur áfrýjað dómnum til Landsréttar og liggur niðurstaða Landsréttar ekki fyrir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Listinn lengist – Þessir háttsettu Rússar hafa verið myrtir í Rússlandi

Listinn lengist – Þessir háttsettu Rússar hafa verið myrtir í Rússlandi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sýknaður af ákæru um heimilisofbeldi – Brotið þótti ekki nógu alvarlegt

Sýknaður af ákæru um heimilisofbeldi – Brotið þótti ekki nógu alvarlegt
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Lektor bendir á yfirgengilega framkomu fyrirtækjaeiganda í Skipholti – „Hún er því miður að gera þetta af einhvers konar illgirni“

Lektor bendir á yfirgengilega framkomu fyrirtækjaeiganda í Skipholti – „Hún er því miður að gera þetta af einhvers konar illgirni“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Dyraat hjá kennara endaði illa – Greip um úlnlið drengsins og dró hann að heimili sínu

Dyraat hjá kennara endaði illa – Greip um úlnlið drengsins og dró hann að heimili sínu
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Ófögnuðurinn blasir við ferðamönnum við komuna til Íslands

Ófögnuðurinn blasir við ferðamönnum við komuna til Íslands
Fréttir
Fyrir 5 dögum

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“