Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, segir að í samfélagi okkar sé þöggun í gangi varðandi Guð kristinna manna og að óvinsælt sé að nefna hann á nafn í opinberri umræðu. Þetta kom fram í jólaprédikun biskups í Grafarvogskirkju í hádeginu þar sem Agnes þjónaði ásamt séra Guðrúnu Karls Helgudóttur og séra Sigurði Grétari Helgasyni en guðsþjónustunni var bæði útvarpað og sjónvarpað á RÚV.
„Guð birtist hér á jörð í barninu Jesú. Það er ekki vinsælt að nefna nafið hans í opinberri umræðu. Það hefur verið þöggun í gangi varðandi Guð kristinna manna. Spurt var hvort samhengi væri á milli vanlíðunar ungs fólks og þess að ekki mætti lengur fræða börnin um kristna trú í skólum landsins. Fundarmenn hneyksluðust á þessari spurningu. Hvaða samhengi ætti svo sem að vera á milli þessa? Við sem treystum þeim Guði sem Jesús birti og boðaði vitum að í öllum aðstæðum lífsins er svar að finna í Orði Guðs. Við vitum að við erum ekki undanskilin þjáningu og erfiðleikum né heldur lífshamingjunni. En við vitum að hvað svo sem mætir okkur á lífsveginum þá erum við ekki ein. Við finnum, ekki bara trúum, heldur finnum að við erum borin á bænar örmum og við erum leidd af honum sem er ljós mannanna,“ sagði Agnes biskup meðal annars í prédikun sinni.
Ljóst er að sitt sýnist hverjum um þessi orð biskups og netverjar á Twitter voru snöggir til að segja skoðun sína.
þessi “Guð kristinna manna” er líka guð múhameðstrúarmanna og guð gyðinga-manna. og samkvæmt honum sjálfum er hann reyndar eini guðinn og verður frekar fúll þegar annað er gefið í skyn pic.twitter.com/V2QUj0STQ9
— Jon Gnarr (@Jon_Gnarr) December 25, 2022
Biskup sagði í jólaprédikun sinni að það væri „þöggun í gangi varðandi Guð“. Hún toppaði það svo með því að ýja að því að aukið ofbeldi og vanlíðan meðal barna væri komin til vegna þess að „ekki mætti lengur fræða börnin um kristna trú í skólum landsins“.
Gleðileg jól.
— Haukur Bragason (@HaukurBragason) December 25, 2022