Laust fyrir kl. 19 í gærkvöld var tilkynnt um innbrot á heimili í hverfi 113 í Reykjavík. Spennt var upp bakhurð, farið inn og rótað í hirslum. Var stolið skartgripum, meðal annars silfurskrauti á íslenskan þjóðbúning.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar segir einnig frá þjófnaðarmáli í Smáralind. Þar stal maður pakka með nýjum fötum, sem voru jólagjafir, og einnig úlpu frá manneskju. Þjófnaðurinn sást í upptökum öryggiskerfa og er vitað hver var þarna á ferð. Gerðist þetta upp úr kl. 18 í gær.
Þriðja þjófnaðarmálið í dagbókinni er einnig frá sjöunda tímanum í gærkvöld. Þá var tilkynnt um þjófnað úr verslun í Kópavogi. Maður var stöðvaður sem ætlaði að yfirgefa verslun með fatnað sem hann hafði ekki greitt fyrir. Maðurinn viðurkenndi brotið og sagðist hafa stolið fötunum því honum væri svo kalt. Lögregla ritaði vettvangsskýrslu um málið.