Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag og segir að þetta komi fram í greiningu sem Ekaterina Uryupovu, hjá Norðurslóðastofnuninni, gerði um ferðir skemmtiferðaskipa á næsta ári.
Útgerðirnar hafa flestar fellt niður ferðir til Rússlands næstu árin en þær höfðu í hyggju að senda skip sín til Frans Jósefslands, Novaja Semlja, Múrmansk og fleiri staða á norðurslóðum. En nú er minni eftirspurn eftir ferðum til norðurslóða en áður.
Fréttablaðið hefur eftir Jóhannesi Þór Skúlasyni, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, að Íslendingar þurfi að ákveða fyrirkomulag og stýringu þessarar greinar.
Samkvæmt upplýsingum frá hafnarstjórum landsins er búist við um 40% aukningu í komum skemmtiferðaskipa til landsins á næsta ári en um 20 hafnir taka á móti skipunum.
Jóhannes sagði að ekki sé gefið að innviðirnir hér á landi geti tekið við öllum þeim sem vilja koma hingað til lands. Þessi hraða aukning geti verið varasöm. Í sumar hafi markaðurinn verið mjög þaninn, skortur hafi verið á rútum, ökumönnum og leiðsögumönnum til að sinna farþegum skemmtiferðaskipa. „Ég held að það verði veruleg áskorun að taka á móti 40 prósenta aukningu skemmtiferðaskipafarþega á næsta ári,“ sagði hann.