fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Sakamál ársins: „Þetta er hræðilegt en maður hefur verið að bíða eftir þessu“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 22. desember 2022 18:53

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lífshættulegar skotárásir, manndráp, kynferðisofbeldi gegn börnum og stórfelld fjársvik gagnvart heilabiluðu fólki, eru á meðal þeirra atburða sem voru áberandi í fréttum af sakamálum og dómsmálum fyrri hluta ársins sem er að líða. Hér verður stiklað á stóru um helstu fréttir DV á þessu sviði. Umfjöllunin er í tveimur hlutum og í þessum fyrri hluta verða rifjuð upp stærstu málin sem voru í fréttum DV fram að sumri. Seinni hluti ársins verður tekinn fyrir síðar.

Rúmeninn Dumitru Calin var í febrúar sakfelldur fyrir að hafa orðið Daníel Eiríssyni að bana fyrir utan heimili þess síðarnefnda í apríl árið 2021. Atburðurinn gekk undir heitinu „Harmleikurinn í Vindakór“ í meðförum DV sem meðal annars ræddi við aðstandendur Daníels heitins og raunar stuttlega við gerandann sjálfan þegar í réttarsal var komið. Dumitru sagðist afar sorgmæddur yfir því sem hefði gerst en lýsti sig saklausan og taldi atburðinn hafa verið slys. Ástvinir Daníels gáfu lítið fyrir þær skýringar og voru afar ósátt við að Dumitru, sem er margdæmdur afbrotamaður, hafi ekki verið ákærður og fundinn sekur um morð.

Daníel lét lífið eftir að hafa dregist með bíl Dumitru um 14 metra, en atvikið átti sér stað í Vindakór í Kópavogi á föstudaginn langa árið 2021. Mennirnir áttu í deilum en Daníel hékk utan á bíl Rúmenans er sá ók burtu.

Dumitru var fundinn sekur um manndráp af gáleysi og dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í byrjun febrúar. Síðar á árinu mildaði Landsréttur dóminn niður í tveggja ára fangelsi.

Hryllileg skotárás í Grafarholti

Í haust var þingfest mál gegn Hrannari Fossberg Viðarssyni sem ákærður var fyrir stórhættulega skotárás sem hann er talinn hafa framið í febrúar. Atvikið átti sér stað í Grafarholti aðfaranótt fimmtudagsins 10. febrúar, á bílastæði við götuna Þórðarsveig. Hrannar er ákærður fyrir tilraun til manndráps og vopnalagabrot. Skotið var á unga konu og ungan karlmann úr bíl sem Hrannar var farþegi í. Skotin höfnuðu í kvið konunnar og vinstra læri mannsins. Samkvæmt ákæru hlaut konan opið sár á kviðlegg auk áverka á þvagblöðru og rofs á neðanverðum ristli. Maðurinn hlaut sár á neðanverðu vinstra læri. Konan var fyrrverandi kærasta Hrannars.

Í ákæru kemur fram að Hrannar var ekki með skotvopnaleyfi og vopnið sem hann beitt var skammbyssa af gerðinni Beretta. Réttað verður í málinu á fyrri hluta næsta árs.

Sveik stórfé út úr heilabiluðum systrum

Í lok apríl var Rocio Berta Calvi Lozano sakfelld í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að féfletta tvær heilabilaðar systur á tíræðisaldri. Hún hlaut tveggja ára skilorðsbundinn fangelsisdóm vegna umboðssvika og féflettingar og þarf að greiða upptökukostnað upp á samtals tæplega 76 milljónir króna. Aðalmeðferð málsins fór fram í mars. Rocio var meðal annars sökuð um að hafa ráðstafað tæplega 80 milljónum króna af bankareikningum systranna í eigin þágu.

Í réttarhöldunum drógu vitni upp ófagra mynd af framgöngu Rocio í málinu. Var því meðal annars haldið fram að hún hefði aftengt dyrabjöllu að heimili systranna og afþakkað viðgerð. Hafi hún haldið annarri systurinni í einangrun frá ástvinum sínum sem hafi fengið fá tækifæri til að heimsækja hana Meðal vitna voru húsvörður og nágrannar gömlu konunnar í fjölbýlishúsi þar, sem ásamt yngri systurinni átti fimm íbúðir og bjó í einni þeirra. Vitni greindu frá því að um tíma hafi foreldrar Rocio búið í einni íbúðinni og um einhvern tíma dóttir og bræður hennar líka. Húsvörðurinn greindi svo frá að þegar Rocio afþakkaði að dyrabjalla gömlu konunnar yrði lagfærð hafi hún á sama tíma óskað eftir því að bjallan í þeirri íbúð sem foreldrar hennar dvöldust í yrði yfirfarin.

Poppsöngvari sakfelldur fyrir brot gegn 12 ára drengjum

Söngvarinn Aaron Ísak Berry, sem vakti athygli árið 2019 er hann sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna, og aftur árið 2020 er hann tók þátt í forkeppni Eurovision, var í marsmánuði sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir kynferðisbrot gegn 12 ára drengjum auk þess að hafa í fórum sínum barnaníðsefni. Brot Aarons voru að miklu leyti í formi rafrænnar áreitni.

Það var álit sérfræðinga sem rannsökuðu Aaron Ísak vegna málsins að hann væri sakhæfur en refsing væri ekki líkleg til að bera árangur vegna ástands hans en hann glímir við ýmsar raskanir.

Var það niðurstaða dómsins að Aaroni Ísak yði ekki gerð refsing vegna brotanna en honum verði skylt að hlíta eftirliti yfirlæknis réttargeðdeildar Landspítalans á Kleppi og meðferðar sálfræðinga. Ennfremur var Aaron Ísak dæmdur til að greiða einum drengnum sem hann braut gegn 1 milljón króna í miskabætur, öðrum 600 þúsund krónur og þeim þriðja 500 þúsund krónur.

Stjórnlaus hegðun mannsins á hvíta fyrirtækisbílnum

Mál Brynjars Joensens Creed, 52 ára gamals manns gifts fjölskylduföður, er talið vera eitt stærsta kynferðisbrotamál Íslandssögunnar. Brynjar var í vor dæmdur í sex ára fangelsi fyrir margvísleg kynferðisbrot gegn stúlkum á grunnskólaaldri. Hann er grunaður um tugi annarra brota af sama tagi sem nú eru til rannsóknar hjá Lögreglunni á Suðurnesjum.

Þann 12. október árið 2021 kærði Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar Brynjar fyrir kynferðisbrot gegn ungri stúlku. Samkvæmt framburði stúlkunnar hafði hún nokkrum sinnum hitt mann sem hafði tekið af henni klámfengin myndbönd gegn greiðslu í formi peninga, fata, áfengis og veipvökva.

Stúlkan sagði að maðurinn væri á hvítum bíl sem hún taldi að væri merktur einhverri kaffitegund, en það passar fullkomlega við vinnustað Brynjars. Í eitt skipti er stúlkan hitti Brynjar keyrði hann með hana á afskekkt svæði hjá bílakjallara. Þar tók hann út á sér liminn og sagði stúlkunni að veita sér munnmök. Hún segist ekki hafa þorað að segja nei og gert það. Strax eftir brotið skutlaði hann stúlkunni að Nettó þar sem hún hitti vini sína.

Þetta atvik er aðeins eitt dæmi af fjölmörgum brotum Brynjars sem meðal annars var sakfelldur fyrir tvær nauðganir. Hann var einnig sakaður um rafræn kynferðisbrot gegn fjölda stúlkna undir lögfræðisaldri. Hann spilaði nokkurs konar tölvuleik með þolendur sína þar sem sífellt grófari athafnir voru verðlaunaðar með dýrari verðlaunum. Má í raun skipta þessu rafræna atferli upp í fimm borð, með líkingu við getustig í tölvuleikjum. Þannig hafi fyrsta borð verið að fá stúlku til að brosa eða hlæja í myndavél, borð tvö að senda mynd af buxnaklæddum afturenda og e.t.v. slá í afturendann, borð þrjú að hrista brjóst og senda mynd af næxbuxnaklæddum rassi, borð fjögur nakinn rass, brjóstaskora eða full nekt; og lokaborðið er fullnæging í myndskeiði.

Brynjar setti þetta upp sem leik og í síma hans fundust skjáskot af borðunum fimm og skilaboð á milli hans og ótalmargra stúlkna sem hann reyndi að fá til að spila leikinn. Brynjar greiddi stúlkunum fyrir þessar athafnir og myndskeiðasendingar með rafrettum, rafrettuáfyllingarvökva, áfengi, undirfötum og kynlífshjálpartækjum.

Óhugnanleg skotárás í Hafnarfirði

Samfélagið fylgdist agndofa með fréttum af fyrirsát sérsveitar ríkislögreglustjóra við fjölbýlishús í Miðvangi miðvikudaginn 22. júní í sumar. Í frétt DV um málið segir:

„Umsátur sérsveitar lögreglunnar í Hafnarfirði á sér stað fyrir utan fjölbýlishús sem er á bak við verslun Nettó og ber sama húsnúmer. Talið er að íbúi í húsinu hafi skotið á bíl fyrir utan. Samningaviðræður lögreglumanna við manninn standa nú yfir.

Að sögn íbúa sem DV náði tali af eru minnst fjórir sérsveitarbílar fyrir utan húsið. Íbúinn, sem er kona, segist hafa sofið af sér skothvellina en samkvæmt upplýsingum sem hún fékk skaut maðurinn annaðhvort út um glugga íbúðar sinnar eða af svölum hennar. Konan segist hafa sofið af sér skothvellina en þegar hún fór út úr húsi og ætlaði til vinnu tóku lögreglumenn á móti henni og báðu hana um að vera innandyra.

Konan getur lítið fylgst með aðgerðum lögreglu úr íbúð sinni. „Mér finnst óþægilegt að fara út svo ég held mig bara inni,“ segir konan. Aðspurð hvort hún upplifi sig örugga segir hún: „Nei, þetta er skrýtin tilfinning, þetta er ekki gott. Ég er dálítið taugaóstyrk út af þessu og það er skrýtið að vita af byssum hérna.“

Konan segir hins vegar að lögreglumennirnir hafi verið mjög vingjarnlegir og kurteisir og það sé óneitanlega hughreystandi að vita af þeim og að þeir séu vopnaðir. „Ég veit að þeir eru með stjórn á ástandinu en það er óþægilegt að vita af því að hér hafi einhver verið að skjóta af byssu út úr íbúðinni sinni. En lögreglumennirnir hafa verið vingjarnlegir og fagmannlegir.“

„Ég horfði niður á næstu hæð og sá að þar voru lögreglumenn með byssur og voru í viðbragðsstöðu,“ segir konan ennfremur.“

Síðar kom í ljós að skotmaðurinn, íbúi í húsinu, maður á sjötugsaldri, hafði skotið á tvo kyrrstæða bíla. Annar bíllinn var mannlaus en maður og barn voru í hinum bílnum, sem sakaði ekki. Var skotárásin rannsökuð sem tilraun til manndráps.

Sjá einnig: Byssumaðurinn í Miðvangi úrskurðaður í vistun á viðeigandi stofnun

Réttað var í málinu í haust og var maðurinn metinn ósakhæfur og því sýkn saka. Honum er hins vegar gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun. Í viðtölum við geðlækna kom í ljós að maðurinn var haldinn ranghugmyndum og taldi hann sér stafa ógn af bílum. Hann sagði það réttlætanlegt að skjóta að fólki í ákveðnum aðstæðum og taldi sig hafa verið í fullum rétti að gera það þar sem lífi hans og ættingja hans hafi verið ógnað. Maðurinn sagði jafnframt að bílstjórar hafi ögrað honum með því að beina bílljósum inn í íbúð hans á öllum tímum sólarhrings. Hann iðrast ekki gjörða sinna en sagðist ekki hafa verið að reyna að skaða fólk enda hafi hann miðað á mælaborðið í bílunum sem hann skaut á.

Morðið í Barðavogi – „Þetta er hræðilegt en maður hefur verið að bíða eftir þessu“

Sunnudagsmorguninn 5. júní barst tilkynning frá lögreglu um að manni hafi verið ráðinn bani við heimili sitt við Barðavog. Hinn myrti var Gylfi Bergmann Heimisson veitingamaður. Grunur féll fljótt á nágranna hans, Magnús Aron Magnússon. Hann var ákærður fyrir glæpinn í lok ágúst en réttarhöld hafa enn ekki farið fram þar sem dregist hefur að fá endanlega skorið úr um sakhæfi Magnúsar. Það er þó talið líklegra en hitt að hann verði metinn sakhæfur.

Magnús Aron (t.h.) ásamt lögreglumanni við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur. Skjáskot RÚV

Magnús Aron er ákærður fyrir að hafa ráðist á Gylfa, fyrst inni í stigagangi hússins við Barðavog og svo utan við húsið. Þar mun Magnús Aron hafa sparkað í og kýlt Gylfa, komið honum niður á jörðina og þar sem hann lá á jörðinni kýlt, sparkað og traðkað margsinnis á honum, meðal annars á andliti og brjóstkassa, með þeim afleiðingum að Gylfi hlaut húðblæðingar og mar í andliti og hálsi, brot á neðri kjálka, kinnbeinum, nefbeinum og tungubeini. Gylfi lést af áverkum sínum fyrir utan húsið.

Nágrannar sem DV ræddi við tjáðu blaðamanni að þeim hafi lengi staðið stuggur af Magnúsi Aron og hann hafi oft sýnt af sér ógnandi hegðun. „Hann er líka stór og sver og það gerir hann meira ógnvekjandi,“ sagði einn nágranninn  í viðtali við DV.  „Þessi strákur hefur verið dálítil plága í hverfinu, sérstaklega fyrir nokkrum árum en ég myndi segja að hann hafi ekki verið til mikilla vandræða undanfarið. Mamma hans ræður ekki við hann og hann ætti fyrir löngu að vera kominn í eitthvert úrræði. Þetta er áfellisdómur yfir heilbrigðiskerfinu.“ Aðspurður hvort nágrannar séu slegnir óhug segir maðurinn svo vissulega vera en bætir við: „Þetta er hræðilegt en maður hefur verið að bíða eftir þessu.“

Fjallað verður um helstu sakamálin á síðari hlutar ársins í grein sem birtist milli jóla og nýárs. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Læknar samþykkja kjarasamning

Læknar samþykkja kjarasamning
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Alvotech ætlar að byggja þrjár leikskóla í Reykjavík fyrir starfsfólk sitt – „Við vildum finna lausnir“

Alvotech ætlar að byggja þrjár leikskóla í Reykjavík fyrir starfsfólk sitt – „Við vildum finna lausnir“
Fréttir
Í gær

Katrín upplifði sorg eftir Alþingiskosningarnar

Katrín upplifði sorg eftir Alþingiskosningarnar
Fréttir
Í gær

Útför Sólons fór fram í dag – „Mikið er ég reið og sorgmædd yfir aðgerðarleysi Icelandair í kjölfar andláts þíns“

Útför Sólons fór fram í dag – „Mikið er ég reið og sorgmædd yfir aðgerðarleysi Icelandair í kjölfar andláts þíns“
Fréttir
Í gær

Íslensk vötn ekki eins hrein og við hreykjum okkur af – Hættuleg eilífðarefni yfir mörkum í öllum sýnum

Íslensk vötn ekki eins hrein og við hreykjum okkur af – Hættuleg eilífðarefni yfir mörkum í öllum sýnum
Fréttir
Í gær

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“