Landsréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms í hryðjuverkamálinu og hafnað kröfum ákæruvaldsins um að þeir Sindri Snær Birgisson og Nathan Ísidórsson, sakborningar í svonefndu hryðjuverkamáli, sæti áfram gæsluvarðhaldi.
Sindri og Nathan ganga nú báðir lausir en þeir hafa verið ákærðir fyrir tilraun til hryðjuverka og vopnalagabrot. Landsréttur ómerkti fyrri úrskurð héraðsdóms um gæsluvarðhald og héraðsdómur kvað síðan upp úrskurð um að mennirnir færu ekki í gæsluvarðhald.
Í úrskurði Landsréttar kemur fram að rétturinn telur ekki að skilyrðum laga um sterkan grun sé fullnægt. Ekki sé hægt að færa sönnur á að félagarnir tveir hafi haft ásetning um að hrinda meintum áformum sínum um hryðjuverk í framkvæmd. Stóran hlut í ákvörðuninni á geðmat yfir mönnunum en samkvæmt því er ekki talið að þeir séu hættulegir sjálfum sér eða öðrum.