Dregið var í Happdrætti DAS í morgun og var aðalvinningurinn 20 milljónir króna á einfaldan miða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Happdrætti DAS.
Eigandi miðans reyndist vera kona á sextugsaldri sem býr í Hafnarfirði. Óneitanlega stór glaðningur rétt fyrir jólin.
Til viðbótar fór einn vinningur að upphæð 300.000 og tveir vinningar, hvor að upphæð 150.000, auk fjölda annarra vinninga.
Aðalvinningar undanfarnar vikur hafa flestir gengið út, segir í tilkynningunni. Um er að ræða upphæðir frá tveimur og upp í átta milljónir.
Þann 15. janúar næskomandi verða dregnar út 40 milljónir króna í aðalvinning og er því augljóslega eftir nokkru að slægjast.