Héraðsdómur Reykjavíkur hvetur bandarískan ríkisborgara, sem fæddur er árið 1994, til að mæta fyrir dóm þann 25. janúar á næsta ári þegar mál gegn honum verður þingfest. Ekki hefur tekist að birta manninum ákæru og er hún því birt ásamt fyrirkalli í Lögbirtingablaðinu í dag.
Ákæran er tilkomin vegna atviks sem varð á Grettisgötu þann 5. október árið 2021. Manninum er gefið að sök að hafa hótað fjórum lögreglumönnum ofbeldi og líkamsmeiðingum, gert tilraun til að bíta einn lögreglumann, og þegar upp á lögreglustöðina við Hverfisgötu var komið er maðurinn sagður hafa bitið lögreglumann í hægri fótlegg með þeim afleiðingum að hann hlaut yfirborðsáverka.
Þess er krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
„Brotið er talið varð við 106, grein almennra hegningarlaga, en hún er svohljóðandi: Hver, sem ræðst með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi á opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu eða út af því, og eins hver sá, sem á sama hátt leitast við að hindra framkvæmd slíks starfa eða neyða starfsmanninn til þess að framkvæma einhverja athöfn í embætti sínu eða sýslan, skal sæta … 1) fangelsi allt að 6 árum.“
Beita má sektum ef brotið telst vera vægt.