Ríkisstjórn Talíbana í Afganistan hefur ákveðið að banna háskólamenntun kvenna í landinu. CNN greinir frá. Um er að ræða enn eitt skrefið sem yfirvöld í landinu hafa tekið til þess að skerða mannréttindi stúlkna og kvenna í landinu frá valdatöku Talíbana í ágúst í fyrra. Í mars á þessu ári bönnuðu yfirvöld stúlkum að sækja sér menntun um fram barnaskólastig.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra Íslands, birti yfirlýsingu á Twitter-síðu sinni í gærkvöldi þar sem hún sagðist vera miður sín vegna ákvörðunarinnar. Um væri að ræða skammarleg ákvörðun og verið væri að níðast á rétti kvenna og stúlkna til að mennta sig.
Mannréttindasamtök hafa fordæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar og það hafa sömuleiðis bandarísk stjórnvöld gert. Með henni séu stjórnvöld í Afganistan að einangra sig enn frekar á alþjóða vettvangi
Talíbanar stjórnuðu Afganistan með harðri hendi á árunum 1996 til 2001 og brutu þá í hvívetna á mannréttindum stúlkna og kvenna. Þegar Talíbanar tóku svo aftur við valdataumunum á síðasta ári var hófsamari nálgun lofað en þau fyrirheit virðast ekki ætla að rætast.
Shocked and saddened by the deplorable decision of the Taliban to close universities for women in #Afghanistan. This violation of the right to education for women and girls is yet another shameful act against the people of the country.
— Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir🇮🇸 (@thordiskolbrun) December 20, 2022