Aðstandendur Kjarnans og Stundarinnar hafa náð samkomulagi um sameiningu frá og með næstu áramótum og þá mun nýr miðill með nýju nafni verða til. Þetta kemur fram í tilkynningum á heimasíðum fjölmiðlanna nú í morgun.
Ráðgert er að kjarnastarfsemi fjölmiðilsins verði dagleg fréttasíða og prentútgáfa sem koma mun út tvisvar í mánuði. Fyrsti útgáfudagur, að óbreyttu, verður 13. janúar 2023 en þangað til verða fjölmiðlarnir reknir með óbreyttu sniði.
Ritstjórar miðilsins verða Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir og Þórður Snær Júlíusson en Helgi Seljan gegn starfi rannsóknarritstjóra. Aðaláherslan verður lög á rannsóknarblaðamennsku, greiningar og daglegar fréttir „frá sjónarhóli almennings fremur en sérhagsmuna,“ eins og segir í tilkynningu.
Ingibjörg Dögg segir sameininguna tilkomna vegna sameiginlegs tilgangs beggja miðla. „Báðir miðlar eru í dreifðu eignarhaldi, óháðir hagsmunablokkum og hafa lifað eftir ákvörðunum almennings um að styrkja þá eða kaupa áskrift. Eina raunhæfa leiðin til að stunda almennilega rannsóknarblaðamennsku er að starfa á forsendum almennings.“
Þórður Snær segir að stærri miðill sem byggir á aðkomu og stuðningi almennings hafi mikil tækifæri til að vaxa og dafna í íslensku fjölmiðlaumhverfi. „Það er mikil eftirspurn eftir greinandi aðhaldsblaðamennsku sem stendur með almenningi og neytendum. Ég er sannfærður um að saman séum við sterkari en í sitthvoru lagi.“
Ennfremur segir að eigendahópur sameinaðs útgáfufélags telji á fjórða tug einstaklinga; bæði úr hópi starfsmanna og fólks utan rekstrarins. Enginn sé með meira en tíu prósenta eignarhlut og standi til að tryggja að svo verði áfram.